Fleiri umsækjendur fá boð um skólavist við Háskólann á Akureyri

Fleiri umsækjendur fá boð um skólavist við Háskólann á Akureyri

Háskólaráð Háskólans á Akureyri hefur samþykkt að öllum umsækjendum með stúdentspróf sem fengu synjun á skólavist fyrr í vor verði boðin skólavist á haustmisseri 2020. Þetta kemur fram á vef skólans.

„Síðustu tvær vikur hefur átt sér stað mikil og góð umræða um stöðu Háskólans á Akureyri og þá staðreynd að mikil aðsókn síðustu ár hefur þrengt að möguleikum okkar til að fjölga nemendum enn frekar.  Yfirlýsing stjórnvalda og stuðningur menntamálaráðherra við skólann og háskólakerfið í heild opna þann möguleika að unnt verði að fjölga nemendum í haust,“ segir Eyjólfur Guðmundsson rektor Háskólans á Akureyri. 

Á vef skólans segir: Háskólaráð ákvað á fundi sínum 26. júní sl. að fjölga samþykktum umsóknum um 40%, úr 1000 í allt að 1400. Þrátt fyrir þessa ákvörðun háskólaráðs fengu rúmlega 600 umsækjendur synjun um skólavist.  Meirihluti þeirra umsókna uppfyllti inntökuskilyrði háskólans. Inntökuskilyrði í grunnnám eru sett samkvæmt lögum um opinbera háskóla nr. 85/2008. Þeir nemendur, sem hefja nám til fyrstu háskólagráðu í háskóla, skulu hafa lokið stúdentsprófi eða öðru jafngildu prófi. Eftir samtöl við stjórnvöld um stöðuna í samfélaginu og stöðu Háskólans á Akureyri frá því að skólinn hóf að vaxa verulega árið 2018, ásamt yfirlýsingu stjórnvalda frá 22. júní sl., og bréfi menntamálaráðherra til skólameistara og rektora sem barst 7. júlí síðastliðinn samþykkti háskólaráð á fundi sínum í morgun að allir umsækjendur með stúdentspróf muni fá jákvætt svar um skólavist fyrir lok dags í dag, 10. júlí 2020. Umsækjendur sem ekki eru með stúdentspróf eða eru með nám frá háskólabrúm annarra háskóla munu fá svar frá háskólanum eftir 10. ágúst nk. þegar mat á þeim umsóknum út frá inntökuskilyrðum deilda verður lokið. Fjöldatakmarkanir á vormisseri 2021 í hjúkrunarfræði, sálfræði og lögreglufræði fyrir verðandi lögreglumenn eru enn í gildi.

Þessi ákvörðun háskólaráðs byggir á skuldbindingu stjórnvalda um fjármögnum háskóla og þeim aðstæðum sem upp eru komnar í íslensku samfélagi vegna Kóvsins. Það er ljóst á þessum tímapunkti að Háskólinn á Akureyri mun þurfa að beita aðgangstakmörkunum á ný haustið 2021 nema til komi aukin fjárframlög til háskólans í fjárlögum 2021 sem byggir á auknu framlagi til háskóla í fjármálaáætlun þeirri sem samþykkt verður á Alþingi í haust. Háskólaráð setur því traust sitt á ríkisstjórn, menntamálaráðherra og Alþingi um að fjármögnun háskólans sé tryggð þannig að háskólinn geti haldið áfram að sinna því hlutverki að veita aðgengi að háskólanámi í sínu nærsamfélagi sem og í byggðum um land allt í gegnum stafræna miðlun náms og uppbyggingar háskólasamfélaga. 

Sambíó

UMMÆLI