Foreldrar reistu skóla í Þorpinu

Foreldrar reistu skóla í Þorpinu

Í Sandgerðisbót stendur lítið hús með stóra sögu. Húsið var byggt í upphafi 20. aldar á meðan Glerárþorp var enn hluti af Glæsibæjarhreppi. Þorpið sameinaðist Akureyri árið 1955. Árið 1902 voru 93 íbúar skráðir með búsetu í Glerárþorpi og fór þeim fjölgandi. Stækkandi hópur barna og lög um barnafræðslu sem samþykkt voru á Alþingi árið 1907 knúði á framkvæmdir við byggingu skóla. Árið 1908 var svo komið að krakkar á aldrinum 10-14 ára voru orðnir 18 talsins og 40 börn yngri en 10 ára svo hjá því varð ekki komist að reisa barnaskóla í sveitarfélaginu.

Í upphafi árs 1908 ákváðu 16 íbúar í Þorpinu að taka sig saman um að byggja skóla fyrir eigið fé. Þeir stofnuðu Skólahúsfélag Glerárþorps til að halda utan um framkvæmdirnar sem hófust í febrúar. „Skólinn í Sandgerðisbót“ tók til starfa 1. nóvember sama ár. Þegar upp var staðið höfðu foreldrar og forráðamenn barnanna sem sækja áttu skólann, greitt 83% af kostnaði við bygginguna. Sautján prósenta mótframlag ríkissjóðs bliknar þannig í samanburði við framlag foreldra og lítur meira út á pappír eins og viðurkenning fyrir vel unnin störf. Mikilvægt framlag engu að síður hjá ríkinu. Börn í Glerárþorpi stunduðu nám í skólanum allt þar til Glerárskóli var reistur á Melgerðisási og vígður í janúar 1938.

Þegar gengið er um svæðið og framhjá gamla skólanum í Bótinni er fátt sem minnir á upphaflegt hlutverk byggingarinnar. Svona hús hefur nú alveg unnið sér inn umbun, þó ekki væri nema lítill skjöldur sem minnti vegfarendur á merkilegu sögu um dugnað og elju. Eins konar viðurkenningarvottur til genginna kynslóða í Þorpinu.

Heimild:

Grenndargralið

Barnafræðsla í Glerárþorpi 80 ára. (1988, 24. mars). Dagur, bls. 7-8.

Sambíó

UMMÆLI