Formannsskipti hjá Eining-Iðju á næsta aðalfundi

Formannsskipti hjá Eining-Iðju á næsta aðalfundi

Björn Snæbjörnsson mun láta af formennsku Einingar-Iðju á næsta aðalfundi félagsins. Anna Júlíusdóttir, núverandi varaformaður félagsins, mun taka við formennsku af Birni. Þetta kemur fram á vef Einingar-Iðju.

Björn hefur gegnt embætti formanns Einingar-Iðju frá árinu 1999 og Verkalýðsfélagsins Einingar þar á undan frá árinu 1992, eða samtals í 31 ár. Hann sat sem meðstjórnandi í stjórn Einingar árin 1982 til 1986 og sem varaformaður frá árinu 1986. Árin í stjórn félagsins verða því orðin 41 þegar hann hættir formennsku og óhætt að segja að það verði stór tímamót á næsta aðalfundi þegar nýr formaður mun taka við. 

Í gær, miðvikudaginn 22. febrúar, rann út frestur til að skila inn lista eða tillögum um fólk í stjórnarsæti vegna kjörs stjórnar og trúnaðarráðs fyrir starfsárið 2023-2024. Ekki bárust tillögur eða listar aðrir en frá trúnaðarráði og teljast þeir félagsmenn sem trúnaðarráð hefur gert tillögu um sjálfkjörnir. Listi trúnaðarráðs tekur því við félaginu á næsta aðalfundi sem fram fer mánudaginn 24. apríl nk. kl. 19:30 í Menningarhúsinu HOFI á Akureyri.  

Trúnaðarráð félagsins gerði tillögu um Önnu Júlíusdóttur, núverandi varaformann félagsins, sem formann og mun hún því taka við formannstitlinum til næstu tveggja ára á aðalfundinum. Anna hefur setið sem varaformaður félagsins frá árinu 2012, en áður hafði hún setið í stjórn sem formaður Matvæladeildar og síðar formaður Matvæla- og þjónustudeildar frá árinu 2001.

Anna segist vera þakklát fyrir traustið og að hún viti að erfitt verður að feta í fótspor núverandi formanns. „Ég mun leggja mig fram um að sinna hlutverki mínu eins vel og ég get og hlakka til að vinna áfram með félagsmönnum ásamt góðum hópi stjórnar og starfsfólks að okkar mikilvægu málum.“ 

Trúnaðarráð gerði jafnframt tillögu um að Gunnar Magnússon yrði áfram ritari félagsins til næstu tveggja ára og að nýr meðstjórnandi til eins árs yrði Pálmi Þorgeir Jóhannsson. Eins og áður segir bárust ekki aðrar tillögur eða listar en frá trúnaðarráði og eru þau því öll sjálfkjörin í stjórn félagsins.

Þá verða skoðunarmenn reikninga til eins árs þau Hrafnhildur Ása Einarsdóttir og Ævar Þór Bjarnason. Varaskoðunarmaður til eins árs verður Ómar Ólafsson. 

Mikil ánægja hefur ríkt með félagið, þjónustuna og störf stjórnar félagsins í viðhorfskönnunum sem gerðar hafa verið undanfarin ár. Gallup hefur séð um framkvæmd slíkrar könnunar fyrir félagið þar sem 1.500 félagsmenn eru spurðir ýmissa spurninga, m.a. um viðhorf til stjórnar, þjónustu félagsins og félagið sjálft. Um 97% svarenda sögðust í síðustu könnun vera mjög eða frekar sáttir eða hvorki né er spurt var hvort viðkomandi væri sáttur eða ósáttur við Einingu-Iðju. Rúmlega 96% merktu við ánægður eða hvorki né er spurt var hversu ánægður eða óánægður ertu með þjónustu Einingar-Iðju þegar á heildina væri litið. Þetta eru mjög svo svipaðar niðurstöður og á síðustu árum.

Sambíó

UMMÆLI