Forréttindi að starfa fyrir KA

Forréttindi að starfa fyrir KA

Óli Stefán Flóventsson hætti störfum sem þjálfari knattspyrnuliðs karla hjá KA í gær. Óli segir að það hafi verið forréttindi að starfa fyrir félagið og að hann hafi notið tímans á Akureyri.

Óli þjálfaði KA í tæp tvö ár og náði síðasta sumar fimmta sætinu í Pepsi Max deild karla með liðið. Eftir erfiða byrjun á keppnistímabilinu í ár ákvað hann í samstarfi við félagið að best væri að slíta samstarfinu. Arnar Grétarsson hefur nú tekið við KA liðinu og mun stýra því út keppnistímabilið.

„Í kringum félagið er fólk sem ég kann ótrúlega vel við. Þetta fólk leggur mikla vinnu í að koma KA áfram og verða það lið sem ég veit að það getur orðið.Þessu fólki öllu saman ásamt stuðningsmönnum þakka ég samfylgdina og óska því ekkert nema góðs í framtíðinni,“ skrifar Óli Stefán í kveðju á Facebook síðu sinni.

„Þjálfarateymið og leikmenn hafa gert í einu og öllu algjörlega það sem ég hef farið fram á, ég gæti ekki verið ánægðari með þeirra framlag. Mér var treyst til þess að stýra skútinni ákveðna leið, leið sem hefur kannski ekki alltaf verið bein og greið en stefnan hefur samt sem áður alltaf verið skýr.“

Óli Stefán segist vera ánægður með þá leið sem liðið fór í fyrra þegar KA endaði í fimmta sæti deildarinnar þrátt fyrir að ýmislegt hefði á gengið. Hann óskar Arnari alls hins besta í starfi sínu sem þjálfari KA.

„Það mikilvægasta hjá mér er að fara yfir liðinn tíma með gagnrýnis gleraugun á. Ég þarf að skoða þau mistök sem ég sjálfur hef gert. Sumt sé ég mjög skýrt nú þegar en það tek ég með mér áfram og læri af. Ég þakka fyrir þær kveðjur sem mér hafa borist í dag.“


Goblin.is

UMMÆLI


Goblin.is