Framtíð Sjúkrahússins á Akureyri

Jóhannes G. Bjarnason

Eftir nokkurra mánaða kjörtímabil er aftur komið að kosningum. Heilbrigðismálin voru sá málaflokkur sem þjóðin krafðist að sett yrðu í forgang fyrir síðustu kosningar og sú krafa stendur eðilega enn. Málaflokkurinn er afar fjölþættur og að mörgu að hyggja, ekki síst að markvissari lýðheilsustefnu sem hægir á eða jafnvel stöðvar sífellt lakari lýðheilsu þjóðarinnar. Málefni og fyrirkomulag heilsugæslunnar hafa verið fyrirferðamikil og ekki að ástæðulausu þar sem fjöldi fólks hefur ekki fastan heimilislækni og fátt sem bendir til að miklar breytingar séu í vændum.

Bygging nýs Landspítala hefur þó eðlilega verið mest áberandi í umræðunni af einstökum þáttum málaflokksins. Deilt er um staðsetningu hans og vegna umfangs málsins hafa önnur en ekki síður mikilvæg verkefni fallið í skuggann á uppbyggingu þjóðarsjúkrahússins. Allir eru sammála um mikilvægi þess að byggja nýjan Landspítala. Efnahagsástand er með allra besta móti og því lag til framkvæmda en það eru ekki einungis húsakynni Landspítala sem þurfa endurnýjunar við. Málefni Sjúkrahússins á Akureyri hafa því miður lítið borið á góma en afar mikilvægt er að byggja nýjar legudeildir við sjúkrahúsið. Líkt og með Landspítala eru byggingar legudeilda komnar til ára sinna og fullnægja ekki kröfum nútímans um aðbúnað.

Hönnunarvinna fyrir viðbyggingu SAk er vel á veg komin og afar brýnt að tryggt verði fjármagn til næstu skrefa framkvæmda. Einstaka deildir sjúkrahússins búa við algerlega ófullnægjandi aðstöðu og má þar nefna geðdeildina sem hefur verið starfrækt í bráðabirgðahúsnæði í áratugi. Við slíkt verður ekki unað mikið lengur. Sjúkrahúsið á Akureyri þjónustar stóran hluta landsbyggðarinnar og álagið á spítalann eykst ár frá ári. Öllum ætti því að vera ljóst að uppbygging sjúkrahússins er mikilvæg á komandi misserum og Landspítalaumræðan má aldrei yfirgnæfa mikilvægi þessa þarfa verkefnis.

Á sjötta hundrað starfsmanna vinna við sjúkrahúsið og ber að skapa þeim sem bestar starfsaðstæður við umönnun á hinum fjölbreytilegu deildum spítalans. Í hönnunarhugmyndum nýbygginga er um gjörbyltingu að ræða í aðbúnaði sjúklinga og starfsaðstæðna starfsfólks. Vonandi fær máli skjótan framgang hjá þeirri ríkisstjórn sem brátt muna taka við stjórnartaumunum.

Uppbygging Sjúkrahússins á Akureyri er eitt af grundvallaratriðum fyrir áframhaldandi uppbyggingu byggðarlagsins. Heilbrigðisþjónusta er einn hornsteina samfélagsins og almenningur lítur til þeirrar þjónustu við ákvörðun búsetu. Fyrstu skrefin hafa verið tekin og nú er það verðandi þingmanna í kjördæminu að vekja athygli á málinu og tryggja því framgang. Þar mun Framsóknarfólk ekki láta sitt eftir liggja.

-Jóhannes G. Bjarnason. Höfundur skipar 5. sæti á lista Framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi.

Sambíó

UMMÆLI