Framtíðaruppbygging Holtahverfis kynnt í dag

Framtíðaruppbygging Holtahverfis kynnt í dag

Í dag, mánudag, verður opið hús í Hofi þar sem íbúum Akureyrar og öðrum áhugasömum gefst kostur á að kynna sér tillögu að deiliskipulagi fyrir Holtahverfi norður. Á morgun, þriðjudag, verður boðið upp á göngutúr með leiðsögn um skipulagssvæðið og í næstu viku verður rafrænn kynningarfundur. Þetta kemur fram í frétt á vef Akureyrarbæjar.

,,Markmiðið með nýju deiliskipulagi er meðal annars að bjóða nýjar íbúðir á einu fallegasta svæði Akureyrar, bæta umferðarskipulag á svæðinu og huga að nýjum gönguleiðum,“ segir í tilkynningunni.

Ábendingar vel þegnar

Á opnu húsi kl. 16-20 í dag verður tillagan sett fram á myndrænan og aðgengilegan hátt. Fólk getur kíkt við í menningarhúsið Hof einhvern tímann á því tímabili, spjallað við starfsfólk bæjarins og skipulagsráðgjafa sem segja frá og svara spurningum. Þetta er í senn gott tækifæri til að kynna sér málið og koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Tekið verður á móti athugasemdum og ábendingum sem litið verður til við frekari vinnslu og umræðu um deiliskipulagið.

Göngutúr með leiðsögn á morgun

Þau sem vilja sjá framtíðaruppbyggingu fyrir sér í enn betra ljósi á sjálfu svæðinu eru hvött til að mæta við Bónus Langholti, þaðan sem verður lagt af stað í léttan göngutúr kl. 17:30 á morgun. Starfsfólk bæjarins leiðir gönguna, segir frá og sýnir frá helstu hugmyndum að uppbyggingu. Farið verður tiltölulega rólega um skipulagssvæðið, stoppað á vel völdum stöðum og sagt frá. Áætlað er að gangan taki tæpan klukkutíma og ætti að vera á flestra færi.

Hægt er að ná í smáforritið Avenza Maps í farsíma og skoða með því skipulagstillöguna um leið og farið er um svæðið og staðsetja sjálfan sig á korti. Það er gert með því að opna þetta pdf skjal með forritinu.

Næsta mánudag eftir viku verður rafrænn fundur þar sem Pétur Ingi Haraldsson, sviðsstjóri skipulagssviðs, kynnir tillögu að deiliskipulaginu. Vefslóð, tímasetning og nánari dagskrá verður auglýst á næstu dögum.

UMMÆLI