Prenthaus

Frelsið við að vera kerlingInga Dagný Eydal skrifar:

Frelsið við að vera kerling

Á facebook gengur núna skemmtilegur leikur sem felst í því að setja mynd af sér í ákveðna viðbót og láta hana þannig sýna hvaða útlitsbreytingar verða þegar aldurinn færist yfir. Útkoman er ótrúlega skemmtilegar og eðlilegar myndir þar sem karakter viðkomandi skín í gegn um hrukkur og skalla. Mín mynd sýndi ótrúlega hrukkótta mig þar sem þó klárlega mín eigin augu horfa út úr þessu gamla andliti. Mér finnst þetta skemmtilegur leikur. Ég verð alls ekki ósátt við þetta útlit, frekar en ég er ósátt við hvernig ég lít út núna. Og trúið mér, það að sættast við sjálfa mig, tók langan tíma og var býsna erfitt. Það hefur ekkert með það að gera að finnast ég líta vel út eða illa, það hefur með það að gera að ég hef fundið þann stað í lífinu þar sem það skiptir ekki máli.

Ég get notið þess að setja á mig varalit og fara í fínan kjól og ég get líka farið út í rauðum gúmmístígvélum með buff og það er allt jafn gott.

Ég er nefnilega kerling sem verð fimmtíu og sex ára eftir nokkra daga og þessi kerling er bara laus við áratuga vandræðagang sem fylgdi því að vera aldrei sátt við sjálfa sig.

Ef það voru ekki aukakílóin, þá voru það psoriasisblettirnir, eða hárið, eða fötin eða nefið….eða bara það að vera ég, svona ómöguleg í alla staði. Og þessu bara deildi ég með milljónum annarra kvenna. Við eyðum tíma, orku, hamingju og peningum í að vera ósáttar við okkur sjálfar, nógu ósáttar til að kaupa allar heimsins lausnir sem geta bætt úr þessari ljótu allri. Ljótu sem er samt bara innra með okkur sjálfum og verður ekki þjálfuð, megruð, pússuð eða slípuð í burtu.

Svo koma fram ungar konur sem krefjast þess að fá að vera lausar við þessa komplexa alla og taka myndir af sér á bikiní og brjóstunum, flottar og frjálsar stelpur. Hvað gerist þá? Jú það spretta upp lærðir og leiknir sem fyllast áhyggjum af því að nú sé verið að normalisera það að vera of feitur.  Fussum svei bara…sértu of þung þá er það heilsufarsvandamál og því skaltu fela þig vel og vandlega þar til þú hefur náð af þér kílóunum!

Þvílík endemis þvæla! Þetta er álíka galið og að ætla að fela þá sem hafa krabbamein þar til að þeir eru orðnir frískir….ekki má normalisera það að hafa krabbamein eða hvað?

Við erum það sem við erum, við erum öll ófullkomin, með aukakíló, hárlaus, einn handlegg í stað tveggja, gömul, hrukkótt og öll gullfalleg. Falleg af því að við erum lifandi og mikils virði hvert og eitt.

Og ég sem er bæði orðin gömul og hef þurft að endurmeta hverja einustu frumeind af tilverunni minni hef loksins náð því huglæga frelsi að vera sama. Mér er þokkalega sama hvernig ég lít út, ég get sleppt því að fá samviskubit yfir því að segja eitthvað kjánalegt eða að öðrum finnist ég ekki vera að passa inn í rammann.

Ég get reyndar alveg tekið upp gamla takta svo sem að horfa inn í fataskápinn og taka móðursýkiskast yfir því að ég eigi ekkert til að fara í og verði bara að vera heima! Munurinn er samt sá að núna veit ég að það er tóm vitleysa og húmbúkk að hugsa svona og hverjum er svo sem ekki sama í hverju ég mæti.,- eða hvort ég er bara heima.

Njótum sumarsins og njótum þess að vera við sjálf.

Pistillinn birti Inga á bloggsíðu sinni Ræða og rit.

Sambíó

UMMÆLI