Víða leynast gamlar bækur sem sjaldan eða aldrei eru dregnar fram úr hillum eða teknar upp úr kössum. Þessi gamla skrudda á sér skemmtilega sögu. Frönsk-dönsk orðabók (Fransk-dansk Haandordbog) frá L. S. Borring, gefin út í Kaupmannahöfn árið 1859. Einar Ásmundsson alþingismaður Eyfirðinga 1874–1885, oftast kenndur við Nes í Grýtubakkahreppi er upphaflegur eigandi bókarinnar. Örlítil forsaga. Kaþólskur prestur, Boudoin að nafni, var gestur Einars í Nesi um allnokkurt skeið þegar sá fyrrnefndi ferðaðist um landið árið 1868. Boudoin þessi var maðurinn á bak við þá ákvörðun að kosta tvo unga Íslendinga til náms við kaþólska skóla erlendis. Jón Sveinsson, Nonni (f1857) var annar þessara tveggja Íslendinga. Hinn var Gunnar (f1853) sonur Einars í Nesi. Eins og öllum lesendum Nonnabókanna er kunnugt um sigldi Nonni með skútunni Valdemar frá Rönne til Frakklands til náms árið 1870 (með árs viðdvöl í Danmörku). Við komuna til Danmerkur eftir fimm vikna siglingu, hittust Nonni og Gunnar. Sá síðarnefndi hafði komið til Danmerkur á undan Nonna með ferðatösku sem m.a. innihélt orðabók sem pabbi hans hafði gefið honum áður en sonurinn hélt á vit ævintýranna. Allir þekkja framhaldið hjá Nonna. Gunnar hélt hins vegar heim til Íslands aftur vorið 1871 og auðvitað var orðabókin með í för. Eftir þetta gekk hún manna á milli innan fjölskyldunnar þar til árið 2002 að Friðrik G. Gunnarsson, langalangafabarn Einars í Nesi afhenti hana Amtsbókasafninu á Akureyri þar sem hún er varðveitt.
UMMÆLI