Skipuleggjendur Einnar með öllu munu funda í dag vegna hátíðarinnar sem fer fram á Akureyri um Verslunarmannahelgina í ljósi nýrra Covid smita sem hafa komið upp hér á landi.
Davíð Rúnar Gunnarsson, einn af skipuleggjendum hátíðarinnar, segir að að sjálfsögðu verði fylgt öllu því sem Almannavarnir og yfirvöld leggi til við skipulagningu hátíðarinnar.
„Við erum byrjuð að breyta og skoða nokkra viðburði hjá okkur en flestir eru þannig að þeir ættu að vera í takt við þær reglur sem um er talað,“ segir Davíð í samtali við Kaffið.
Fyrir nokkru var ákveðið að hátíðin færi fram með breyttu sniði en vanalega og að hún yrði mjög smá. Davíð segir að það sé spurning hvort það sé yfir höfuð réttmætt að kalla þetta hátíð með því sniði sem hún fer fram í ár.
„Þetta eru í raun bara litlir viðburðir sem fyrirtæki og bæjarbúar eru að skipuleggja. Í raun er bara verið að reyna að halda utan um þessa viðburði með það í huga að öllum reglum sé fylgt. Þetta verður Ein með litlu í ár.“
UMMÆLI