Heimir Örn Árnason, formaður fræðslu- og lýðheilsuráðs, tók í dag fyrstu skóflustunguna að nýjum leikskóla sem rísa mun við Naustagötu í Hagahverfi á Akureyri. Leikskólinn mun heita Hagasteinn.
Á vef Akureyrarbæjar kemur fram að byggingin verði rúmlega 1.800 m² og er gert ráð fyrir að framkvæmdum verði skipt upp í tvo áfanga og að fyrri áfanginn með 5 deildum verði tilbúinn í ágúst 2026. Fullbúinn verður skólinn með 8 leikskóladeildum fyrir nemendur á aldrinum eins til sex ára með allt að 47 stöðugildum en fjöldi starfsfólks er áætlaður 52-57.
„Áhersla verður lögð á hollustu og hreyfingu leikskólabarna í Hagasteini, umhverfismennt, flokkun og útivist. Þannig verður öryggi og heilnæmi í hávegum haft. Skólinn mun starfa samkvæmt lögum og reglugerðum um leikskóla, aðalnámskrá leikskóla, menntastefnu Akureyrarbæjar og Réttindaskóla UNICEF,“ segir á vef Akureyrarbæjar.
Áætlað er að skólastjóri Hagasteins verði ráðinn á vorönn 2026 og komi í beinu framhaldi að frekari mótun á áherslum skólans.
UMMÆLI