Fyrsta TextílLab á Íslandi opnar á Blönduósi

Fyrsta TextílLab á Íslandi opnar á Blönduósi

Fyrsta TextílLab á Íslandi verður opnað í Textílmiðstöð Íslands á Blönduósi á föstudaginn kemur, þann 21. maí, klukkan 14.00. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra,  og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, ávarpa gesti og klippa í sameiningu á þráðinn þegar TextílLabið verður opnað.

Textílmiðstöð Íslands vinnur að því að verða alþjóðleg miðstöð í rannsóknum og þróunarstarfsemi í textíl, listum og handverki byggðum á íslenskum hráefnum, munstrum og textíl. Með opnun TextílLabs og síðar rannsóknaraðstöðu fyrir bíotextíl í samstarfi við Biopól á Skagaströnd er markmiðið  að skapa umhverfi þar sem þekkingar- og þróunarstarfsemi á sviði ullar- og textílvinnslu getur vaxið og dafnað á Norðulandi vestra og Íslandi öllu. Stefnt er að uppbyggingu textílklasa í tengslum við verkefnið.

Tekist hefur að fjármagna kaup á stafrænum vefstól, prjónavél og útsaumsvél, nálaþæfingarvél,  auk leiserskera og vínylprentara sem er staðalbúnaður í flestum starfrænum smiðjum og unnið er ötullega að frekari fjármögnun.

Fjölþætt alþjóðlegt samstarf miðstöðvarinnar og þátttaka í Horizon2020 verkefninu CENTRINNO næstu þrjú árin leggur grunn að fjölbreyttum samstarfsverkefnum og þekkingaryfirfærslu.

Markmiðið með uppbygginu á TextílLabi Textílmiðstöðvarinnar er að:

●      Efla textílrannsóknir og auka fagþekkingu í greininni með því endurvekja þann mikilvæga menningararf sem fólginn er í íslenskum textíl og vinnu með hráefni eins og íslensku ullina, og með nútímalegum vinnubrögðum,  nýrri tækni og nýsköpun. Sérstök áhersla er lögð á sjálfbærni og samfélagslega sérstöðu íslensks handverks.

●      Tryggja öllum þeim, hvort heldur innlendum og erlendum aðilum sem hafa hug á að nýta nútíma framleiðslutækni í bland við hefðbundnar aðferðir, aðgengi að stafrænni tækni og vélum til nýsköpunar og þróunar nýrra textílvara.

●      Stuðla að verðmætasköpun, atvinnuuppbyggingu og vöruþróun í tengslum við textíl og stuðla þannig að fjölgun sérhæfðra starfa á landsvísu og að jákvæðri samfélagsþróun og uppbyggingu á hugvitsdrifnu hagkerfi.

Staðið verður fyrir námskeiðum og stuðlað að samstarfi við framhalds- og háskóla um þjálfun nemenda í hönnunartengdu námi á stafræna tækni, hefðbundið handverk og menningar- og listasögu textíls á Íslandi. Lögð er áhersla á að þróa þekkingu á því hvernig nýta má nútíma framleiðslutækni í bland við hefðbundnar aðferðir þannig að aðgengið að TextílLabinu leiði til nýsköpunar og þróunar nýrra textílvara.

Sambíó

UMMÆLI