Fyrsta Vetrarbrautskráningarathöfnin við Háskólann á AkureyriMynd: Unak.is

Fyrsta Vetrarbrautskráningarathöfnin við Háskólann á Akureyri

Laugardaginn 18. febrúar fór fram fyrsta Vetrarbrautskráningarathöfn Háskólans á Akureyri. Athöfnin var ætluð kandídötum sem fengu brautskráningarpappíra sína í október 2022 og þeim sem brautskrást í febrúar 2023. Samtals eru þetta 72 prófgráður inntar af 71 kandídat af tveimur fræðasviðum. Þetta kemur fram á vef skólans.

Í ræðu sinni gerði Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, kandídötum grein fyrir því hversu fljótt þekking úreldist nú á dögum og impraði á mikilvægi endurmenntunar – sérstaklega í ljósi síbylju skoðana sem oftar en ekki eru kynntar sem vísindi: „Þá reynir á að geta greint á milli þess rétta og þess ranga. Sem stúdentar við Háskólann á Akureyri hafið þið, kandídatar góðir, öðlast færni til að greina þarna á milli – nýtið það vel!“.

Á þeim 36 árum sem Háskólinn á Akureyri hefur verið starfræktur hefur hann gefið 7.000 manns tækifæri til menntunar. Eyjólfur sagði Háskólann á Akureyri hafa gegnt lykilhlutverki: „Það eru ekki allir sem átta sig á því hversu gríðarleg breyting það var fyrir Íslendinga alla að eiga fleiri valkosti um nám á Háskólastigi með tilkomu HA. Skólinn hefur því ætíð haft að leiðarljósi að við erum hér til þess að bæta aðgengi allra Íslendinga að háskólanámi og hefur uppbygging fjarnáms, sem nú er orðið að kjarnastarfsemi skólans, verið lykilatriði í því að gefa Íslendingum öllum aðgengi að háskólanámi.“

Hér má lesa ræðu rektors í heild sinni. Nánar má lesa um viðburðinn og skoða myndir á vef Háskólans.

UMMÆLI

Sambíó