Fyrstu skammtar af bóluefni komnir norður

Fyrstu skammtar af bóluefni komnir norður

Fyrstu skammtar af Pfizer bóluefninu eru byrjaðir að berast á Norðurlandið en bóluefni verður afhent á starfsstöðvum HSN á Blönduósi, Sauðárkróki, Siglufirði, Dalvík, Akureyri og Húsavík í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu HSN.

Þar segir að gert sé ráð fyrir því að bólusetning með þessum fyrstu skömmtum ljúki í dag og á morgun. Forgangsröðun er í samræmi við reglugerð og tilmæli sóttvarnalæknis.

Í þessari umferð munu íbúar á hjúkrunar- og dvalarheimilum á Norðurlandi verða bólusettir auk lækna og hjúkrunarfræðinga HSN sem sinna bráðaþjónustu, alls 520 manns. Hjúkrunarfræðingar og læknar í heilsugæslu á HSN hafa umsjón með bólusetningunum í samvinnu við hjúkrunarfræðinga á hjúkrunar- og sjúkradeildum.

„Haldið verður áfram með bólusetningar eftir áramót þegar næsti skammtur af bóluefni berst. Ekki verður hægt að panta bólusetningu heldur verður fólk látið vita hvenær því stendur til boða að mæta og hvar. Við biðjum því fólk vinsamlegast um að hringja ekki í heilsugæslustöðina vegna þessa,“ segir í tilkynningu.

Mynd með frétt:

Til hægri: Elín Árdís Björnsdóttir, deildarstjóri heilsugæslu HSN Sauðárkróki komin með bóluefni í hendurnar.

Til vinstri: Ásdís Arinbjarnardóttir, yfirhjúkrunarfræðingur svæðis á HSN Blönduósi komin með bóluefni.

UMMÆLI