Fyrstu tillögur að nýju leiðaneti SVA

Fyrstu tillögur að nýju leiðaneti SVA

Fyrstu tillögur að nýju leiðaneti Strætisvagna Akureyrar hafa litið dagsins ljós. Kynningar- og samráðsferli tekur nú við og er óskað eftir ábendingum frá íbúum um tillögurnar. Þetta kemur fram á vef bæjarins.

Allar upplýsingar má nálgast á sérstöku vefsvæði verkefnisins sem var opnað í vikunni.

„Í þessu felast nokkur tíðindi, enda má segja að það sé verið að leggja til nýja hugmyndafræði sem þekkist víða í almenningssamgöngum á stærri skala. Áhersla á beinni leiðir, stóraukna tíðni (15-20 mínútur á annatíma) og styttri ferðatíma. Markmiðið er að bæta þjónustuna og fjölga farþegum með því að gera fleirum kleift að nota strætó að jafnaði,“ segir Jón Þór Kristjánsson verkefnisstjóri upplýsingarmiðlunar hjá Akureyrarstofu.

Hér að neðan má sjá fréttatilkynningu sem birtist á vef Akureyrarbæjar:

Ný hugmyndafræði

Markmiðið með endurskoðun leiðanetsins er að bæta þjónustuna og fjölga farþegum. Fyrstu tillögur byggja á nýrri hugmyndafræði. Lagt er til að hverfa frá þekjandi kerfi (e. coverage) þar sem vagnar aka hringleiðir um bæinn og taka þess í stað upp svokallað þátttökukerfi (e. ridership) þar sem leiðir eru beinni, tíðni er aukin og ferðatími er styttri, jafnvel þótt gönguvegalengdir að næstu biðstöð geti aukist.

Eru þessi leiðarljós og áherslur í samræmi við gagnaöflun og samráð við íbúa á fyrri stigum verkefnisins.

15-20 mínútna tíðni á annatíma

Lagt er til að leiðanetið samanstandi af tveimur megin leiðum auk pöntunarþjónustu við innbæinn. Hvor leið verður þjónustuð af tveimur til þremur vögnum. Hér er hægt að skoða tillögurnar nánar.

Væntur ávinningur – í stuttu máli:

  •  Aukin tíðni: Stefnt er að 15-20 mínútna tíðni á annatíma á virkum dögum (kl. 6-9 og kl. 14-18) og 30 mínútna tíðni þess á milli. Á kvöldin er horft til 60 mínútna tíðni til kl. 23.
  • Einfaldara leiðanet: Tvær leiðir leysa af hólmi sex leiðir – auðvelt að læra og næsti vagn aldrei langt undan.
  • Tenging milli skóla og tómstunda: Mun betri og hraðari tenging en áður milli grunnskóla, framhaldsskóla, háskóla og íþrótta- og tómstundastarfs. Minna skutl.
  • Styttri ferðatími í heild: Minni bið eftir strætó og beinni leiðir. Leiðanetið á að virka sem „net“ þannig að auðvelt verði hægt að skipta úr einni leið í aðra þar sem leiðirnar mætast.

Taktu þátt í mótun leiðanetsins

Óskað er eftir hugmyndum og ábendingum, til dæmis varðandi legu leiða og staðsetningu stoppistöðva. Allar ábendingar eru mikilvægar og verða til skoðunar. Hægt er að skoða tillögurnar á gagnvirku korti og gera athugasemdir. Hér eru allar upplýsingar um samráðið. Auk þess er hægt að senda inn almennar athugasemdir á nyttleidanet@akureyri.is

Óskað er eftir því að athugasemdir berist eigi síðar en 18. nóvember.

Tillögurnar verða kynntar vel næstu vikurnar og eru íbúar hvattir til að fylgjast með hér á heimasíðunni og samfélagsmiðlum bæjarins. Rafrænn kynningarfundur verður haldinn miðvikudaginn 11. nóv kl. 17 (nánari upplýsingar á næstu dögum) og þá er stefnt að því að setja upp kynningarefni á Glerártorgi sem gestir og gangandi geta skoðað. Áhersla er lögð á að ná til sem flestra hópa samfélagsins og verður sérstaklega leitað til hverfisnefnda, félaga og mikilvægra hagsmunahópa. Vegna útbreiðslu Covid-19 og sóttvarnaaðgerða verður kynning og samráð að mestu leyti með rafrænum hætti. 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó