Prenthaus

Gáfu byggingadeild VMA verkfæri að verðmæti á aðra milljón krónaHinrik Þórðarson, kennari í pípulögnum, Helgi Valur Harðarson, brautastjóri byggingadeildar, Benedikt Barðason, aðstoðarskólameistari VMA, Elmar Þór Björnsson, verslunarstjóri Verkfærasölunnar á Akureyri, Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA, og Brynjar Schiöth, sölumaður Verkfærasölunnar á Akureyri. Mynd: vma.is

Gáfu byggingadeild VMA verkfæri að verðmæti á aðra milljón króna

Byggingadeild Verkmenntaskólans á Akureyri fékk góða gjöf frá Verkfærasölunni á Akureyri í vikunni. Elmar Þór Björnsson, verslunarstjóri Verkfærasölunnar á Akureyri, og Brynjar Schiöth, sölumaður fyrirtækisins á Akureyri færðu byggingadeild að gjöf Milwaukee rafverkfæri að verðmæti á aðra milljón króna. Þetta kemur fram á vef VMA.

Þeir komu einnig með ótal handverkfæri sem VMA keypti af Verkfærasölunni á góðum kjörum. „Öll munu þessi nýju verkfæri nýtast vel fyrir nemendur og kennara í pípulögnum, sem er einn angi námsins í byggingadeild,“ segir á vef VMA.

Elmar Þór segir það ánægjuefni fyrir Verkfærasöluna að geta lagt öflugu námi í byggingadeild VMA lið með þessum hætti en nú eru um fimm ár liðin síðan fyrirtækið opnaði verslun á Akureyri. Fyrst var hún í húsnæði við Dalsbraut en er nú til húsa að Tryggvabraut 14 – gengið inn frá Furuvöllum. Fyrirtækið var stofnað í Reykjavík árið 1997 og þar eru höfðustöðvarnar en einnig er verslun Verkfærasölunnar í Hafnarfirði. Einar Þór segir versluna á Akureyri ganga mjög vel og eiga sér dygga viðskiptavini hjá verktökum og almenningi.

Verkfærasalan flytur inn bandarísku Milwaukee vörurnar og sem fyrr segir gefur hún byggingadeild VMA búnað af þeirri gerð.

Til móttökunnar mættu kennarar og nemendur í byggingadeild, þ.m.t. pípulagnanemar. Helgi Valur Harðarson, brautarstjóri byggingadeildar, og Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA, tóku til máls og þökkuðu Verkfærasölunni fyrir þessa höfðinglegu gjöf og þann stuðning sem fyrirtækið sýni skólanum með henni.

UMMÆLI

Sambíó