Gamla steypustöðin fékk nafnið Steypustöðin

Gamla steypustöðin fékk nafnið Steypustöðin

Í sumar óskaði Akureyrarbær eftir hugmyndum að nafni á nýjan áningarstað í Hrísey. Fyrr á árinu var nýr göngustígur á vestanverðri Hrísey kláraður en hann liggur meðal annars að áningarstaðnum sem útbúinn hefur verið þar sem áður var gömul steypustöð við sjávarbakkann. Nú hefur áningarstaðurinn fengið nafnið Steypustöðin. Greint er frá á Akureyri.is.

Alls bárust tillögur frá 124 einstaklingum og 12 þeirra lögðu til að gamla steypustöðin héti framvegis Steypustöðin. Það voru flest sem lögðu það nafn til en í öðru sæti var heitið Sílóið sem kom fram fjórum sinnum.

„Nýi stígurinn hefur notið mikilla vinsælda í sumar enda er þar margt að sjá. Leiðin er tiltölulega auðveld og mest á sléttlendi. Útsýni er gott yfir á Tröllaskaga og til norðurs að Ólafsfjarðarmúla. Þarna gefur oft að líta seli á grjótum í fjöruborðinu,“ segir í tilkynningu á Akureyri.is.

Innsetningin er hönnuð af Einari Sigþórssyni, arkitekt hjá skipulagsdeild Akureyrarbæjar, en Stálsmiðjan Útrás ehf sá um smíðina.

Áningarstaðurinn er hluti af nýrri 4,5 km langri hringleið sem liggur um vesturhluta Hríseyjar. Leiðin samanstendur af nýjum stíg meðfram ströndinni, auk eldri slóða og vegbúta sem fyrir eru. Þetta er eini göngustígurinn á þessum svæði og veitir margvíslega náttúruupplifun.

Á leiðinni má m.a. komast að fallegri sandströnd sem hentar vel til sjóbaða, auk þess sem oft er hægt að sjá bæði seli og fjölbreytt fuglalíf. Leiðin liggur einnig yfir flugvöllinn – sem er sjaldan notaður – og að fuglaskoðunarsvæðinu við Lambhagatjörn.

Gönguleiðin er aðgengileg og tiltölulega létt, þar sem lítill hæðarmunur er á henni. Hún hentar því fjölbreyttum hópum, allt frá göngu- og hjólafólki til sjósunds iðkenda auk fuglaáhugafólks.

COMMENTS