Garn í gangi – Athvarf fyrir prjónafólk á AkureyriSkjáskot úr föstudagsþættinum á N4.

Garn í gangi – Athvarf fyrir prjónafólk á Akureyri

Garn í gangi er nafn á glænýrri hannyrðabúð í Listagilinu á Akureyri sem opnaði um síðustu helgi. Áhersla verslunarinnar er að hafa það huggulegt og að veita góða þjónustu við hannyrðafólk af öllu tagi. 

Það eru þær Sveina Björk Jóhannsdóttir og Ragnheiður Jakobsdóttir sem standa á bak við verslunina sem fengið hefur nafnið Garn í gangi. „Okkur fannst vanta lítið athvarf fyrir okkur prjónafólkið,“ segir Sveina Björg í viðtali í föstudagsþættinum á N4. Sveina, sem er textílhönnuður, hafði áður selt garn í ganginum heima hjá sér og þaðan kemur nafnið á versluninni en hugmyndin að versluninni í Gilinu kviknaði í desember þegar leiðir hennar og Ragnheiðar lágu saman. 

Vilja þjónusta hannyrðahópinn vel

Garn í gangi er eina sérvöruverslunin á Akureyri með hannyrðavörur og vilja þær stöllur þjónusta þennan hóp vel. Þá vilja þær gefa viðskiptavinum sínum góða upplifun og bjóða þeim að setjast niður og fletta bókum til að fá hugmyndir, drekka einn kaffibolla og skoða garnaprufur. Þær segjast vera með töluvert úrval af garni. Auk þess að panta beint frá birgjum sjálfar þá eru þær líka í samstarfi við Storkinn í Reykjavík og Garnabúð Eddu í Hafnarfirði og fá vörur frá þeim. Verslunareigendurnir voru í viðtali í Föstudagsþættinum á N4 og sögðu þar nánar frá starfsseminni. 

UMMÆLI