Akureyri-Færeyjar

Gauti Jóhannesson vill leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi

Gauti Jóhannesson vill leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi

Gauti Jóhannesson hefur ákveðið að bjóða sig fram til að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar sem fara fram 25. september næstkomandi.

„Að baki þessari ákvörðun er einlægur vilji minn til að láta gott af mér leiða í kjördæminu og sá eindregni stuðningur og hvatning sem ég hef fengið víða að og er þakklátur fyrir,“ segir Gauti.

Gauti er forseti sveitarstjórnar í Múlaþingi og fyrrverandi sveitarstjóri á Djúpavogi. Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, hefur einnig lýst yfir áhuga sínum á að leiða flokkinn í kjördæminu. Kristján Þór Júlíusson mun ekki bjóða sig fram.

Tilkynningu Gauta Jóhannessonar má lesa í heild hér að neðan:

Ég hef ákveðið að bjóða mig fram til að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi vegna kosninga til Alþingis sem fram fara 25. september. Að baki þessari ákvörðun er einlægur vilji minn til að láta gott af mér leiða í kjördæminu og sá eindregni stuðningur og hvatning sem ég hef fengið víða að og er þakklátur fyrir.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur leitt meirihlutann í hinu nýja sameinaða sveitarfélagi Múlaþingi frá því kosið var til sveitarstjórnar í haust. Í aðdraganda þeirrar ákvörðunar að bjóða mig fram til þings hef ég verið í góðu sambandi við samstarfsfólk mitt á svæðinu og efast ekki um að það góða fólk mun halda áfram öflugu starfi flokksins í sveitarfélaginu fari svo að ég hverfi til starfa á öðrum vettvangi.

Að mínum dómi er mikilvægt er að þingmenn Sjálfstæðisflokksins endurspegli sem best kjördæmið allt, hafi ólíkan og fjölbreyttan bakgrunn og innsýn í þau margbreytilegu viðfangsefni sem við er að eiga hvort heldur það er í fjölmennustu þéttbýliskjörnunum eða dreifbýlinu.
Í starfi mínu sem sveitarstjóri síðastliðin tíu ár, við markaðssetningu sjávarafurða og þar áður sem skólastjóri hef ég aflað aflað fjölbreyttrar og mikilvægrar reynslu sem ég tel að muni koma til góða nái ég kjöri.

Áherslur mínar eru og hafa verið byggða- og atvinnumál í víðum skilningi. Þá má gera enn betur hvað varðar stafræna opinbera þjónustu til hagsbóta fyrir íbúa á landsbyggðinni. Síðast en ekki síst er ég talsmaður einföldunar á regluverki með það fyrir augum að auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og auðvelda íbúum um landið allt líf og störf, en íþyngja þeim ekki.

Markmið Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi er að ná þremur þingsætum í kosningunum í haust. Við eigum ekki að sætta okkur við minna. Til að það megi verða þurfum við öll að leggjast á eitt, halda á lofti þeim gildum og málefnum sem við stöndum fyrir og tala skýrt. Ég er tilbúinn að leiða sjálfstæðisfólk í Norðausturkjördæmi á þeirri vegferð.

UMMÆLI