Gerðu athugasemdir á veitingastöðum, skemmtistöðum og í sundlaugum

Gerðu athugasemdir á veitingastöðum, skemmtistöðum og í sundlaugum

Jóhannes Sigfússon, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Akureyri, segir að lögreglan hafi þurft að grípa inn í og gera athugasemdir vegna tveggja metra reglunnar á Akureyri um helgina. Bæði á veitinga- og skemmtistöðum en einnig í sundlaugum. Þetta kemur fram á vef RÚV.

„Svona almennt má segja að þetta hafi komið þokkalega út en þó er misbrestur. Það er þá fyrst og fremst þegar líður á kvöldið og fólk er komið í glas og svona, að þá virðist nú tveggja metra reglan eiga mjög undir högg að sækja hjá fólki. Maður sér of mikið af kossum og knúsi,“ segir Jóhannes í samtali við fréttastofu RÚV.

Jóhannes segir að lögreglan sé enn í startholunum en ítrekar það að sektarheimildir lögreglunnar vegna sóttvarnarlaga gilda ekki einungis á höfuðborgarsvæðinu. Sömu reglur gildi á Akureyri.

Lögreglan verður með virkt eftirlit á næstu dögum. Jóhannes segir að ekki hafi þurft að grípa inn í vegna brota á sóttvarnareglum á tjaldstæðum, en ekki sama sögu sé hægt að segja um sundlaugar á svæðinu.

Hann segir að lögreglan hafi fengið ábendingar um að ekki væri verið að virða reglurnar nægilega vel í búningsklefum og sturtum og ofan í pottunum jafnvel.

„Það þarf greinilega að skerpa aðeins á hlutum þar líka,“ segir Jóhannes.


UMMÆLI