Gerir ráð fyrir töluverðri truflun á skólastarfi á vorönn

Gerir ráð fyrir töluverðri truflun á skólastarfi á vorönn

Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari VMA segir að í ljósi mikillar fjölgunar smita að undanförnu séu á margan hátt óvissutímar í byrjun vorannar 2022. Hún segir að það megi gera ráð fyrir töluverðri truflun á skólastarfi á önninni. Þetta kemur fram á vef skólans.

„Bæði einhverjir nemendur og kennarar verða að fara í einangrun og sóttkví. Þetta segi ég vegna þess að smitin eru svo almenn út í samfélaginu. Vissulega hefur verið eitthvað um slíkt hér í skólanum frá því að faraldurinn hófst en við höfum búið okkur undir að það verði í mun meira mæli á þessari önn en áður. Til þess að þessar aðstæður hafi sem minnst áhrif á nám nemenda hefur verið tekin ákvörðun um að bregðast við m.a. með því að í lok annar verði ekki lofapróf eins og verið hefur en þess í stað verði námsmatið í formi símats. Með þessu er unnt að ná fram ákveðnum sveigjanleika ef á þarf að halda vegna mögulegrar fjarveru nemenda og kennara,“ segir Sigríður á vef skólans.

„Ég er kennurum mjög þakklát fyrir hvernig þeir hafa tekið þeirri áskorun að breyta námsmati sínu á þessari önn. Við erum öll sammála um það markmið að leita allra leiða til þess að sem allra minnst röskun verði á náminu við þessar aðstæður og við viljum öll gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að koma í veg fyrir óvissu og streitu sem því fylgir ef nemendur þurfa að vera eitthvað í burtu vegna sóttkvíar eða einangrunar.“

Hún undirstrikar mikilvægi sóttvarna nemenda og starfsfólks skólans. Grímuskylda er í öllum skólanum og það eru fjarlægðartakmörk. Sigríður minnir einnig á mikilvægi handþvottar og spritts. Þá telur hún mikilvægt að hvorki nemendur né starfsfólk komi í skólann ef þau hafi einhver einkenni sem geta bent til Covid.

„Þessar aðstæður eru eitthvað sem við ráðum ekki við en við getum ráðið okkar viðhorfi frá degi til dags. Það erum við sjálf sem ákveðum að mæta ekki í skólann vegna þess að við erum með einhver kóvideinkenni, það er ákvörðun hvers og eins nemanda að sinna námi sínu vel þrátt fyrir faraldurinn og við treystum því að hver og einn nemandi og starfsmaður skólans sjái um sínar sóttvarnir.“

Nánar er rætt við Sigríði á vef VMA.

Sambíó

UMMÆLI