Gígja og Brynjar eru íþróttafólk KA árið 2020

Gígja og Brynjar eru íþróttafólk KA árið 2020

Blakkonan Gígja Guðnadóttir var valin íþróttakona ársins 2020 hjá KA. Knattspyrnumaðurinn Brynjar Ingi Bjarnason var valinn íþróttakarl ársins. Á 93 ára afmælisfögnuði KA var árið gert upp og þeir einstaklingar sem stóðu uppúr verðlaunaðir. Þetta kemur fram á vef félagsins.

Þar segir um verðlaunahafana:

Gígja Guðnadóttir er einn af burðarásum meistaraflokks kvenna í blaki sem á undanförnum árum hefur átt í góðu gengi. Gígja sem er fyrirliði liðsins og einn af máttarstólpum þess var lykilleikmaður þegar liðið tryggði sér Deildarmeistaratitilinn á síðasta tímabili. Þá spilar Gígja einnig mikilvægt hlutverk í A-landsliði Íslands en liðið keppti á Novotel Cup í Lúxemborg í janúar 2020 en þar vann liðið til bronsverðlauna.

Gígja er fyrirmynd allra ungmenna og er ekki bara góður íþróttamaður heldur einnig fyrirmyndar einstaklingur innan sem utan vallar. Hún gefur mikið af sér, stundar heilbrigt líferni og er ábyrg og metnaðarfull í því sem hún tekur sér fyrir hendur.

Brynjar Ingi var valinn besti leikmaður KA í knattspyrnu árið 2020 af leikmönnum, stjórn og stuðningsmönnum. Brynjar Ingi lék stórt hlutverk í Pepsi-deildarliði KA sem endaði tímabilið í 7. sæti og lék hann alla leiki liðsins í deild og bikar. Brynjar Ingi, sem er ósérhlífinn leikmaður, lék í hjarta varnarinnar sem fékk aðeins á sig 21 mark í 18 leikjum. Aðeins tvö lið fengu á sig færri mörk og tapaði KA aðeins þremur leikjum sumarið 2020.

Brynjar Ingi er hreinn og beinn drengur sem að hefur vaxið mikið sem knattspyrnumaður undanfarin ár. Hann hefur alla burði til þess að verða einn besti miðvörður Íslands en Brynjar er aðeins 21 árs gamall. Hann hefur sýnt að þolinmæði og elja eru einkenni sem að ungir knattspyrnumenn þurfa að
hafa til þess að ná langt.

Hjá körlunum varð Miguel Mateo Castrillo blakmaður annar í kjörinu, handknattleiksmaðurinn Andri Snær Stefánsson þriðji og júdókappinn Adam Brands Þórarinsson fjórði.

Hjá konunum varð handknattleikskonan Ásdís Guðmundsdóttir önnur í kjörinu, knattspyrnukonan Karen María Sigurgeirsdóttir þriðja og júdókonan Berenika Bernat sú fjórða.

VAMOS AEY

UMMÆLI