Giljaskóli hlaut viðurkenningu sem réttindaskóli Unicef

Giljaskóli hlaut viðurkenningu sem réttindaskóli Unicef

Í gær, 20. nóvember á alþjóðlegum degi réttinda barnsins, hlaut Giljaskóli viðurkenningu sem Réttindaskóli UNICEF. Skólinn er jafnframt sá fyrsti utan höfuðborgarsvæðisins til þess að hljóta þá viðurkenningu. Réttindaskólar stuðla að fræðslu um réttindi barna, til nemenda, foreldra og starfsfólks. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar.

Kristín Jóhannesdóttir skólastjóri Giljaskóla segist fagna þessum áfanga. „Skólar eru fyrir börn og því eiga réttindi þeirra að vera í hávegum höfð. Það hefur verið lærdómsríkt að taka þátt í þessu mikilvæga verkefni og við erum stolt af árangrinum hingað til. Ég vona að skólastarfið í Giljaskóla verði þekkt fyrir viðurkenningu á réttindum barna og lýðræðislegt skólastarf sem einkennist af þátttöku nemenda og jafnrétti.“

Í tilefni dagsins var þemadagur í Giljaskóla og unnu nemendur verkefni sem tengjast réttindum barna. Að lokinni viðurkenningarathöfn, sem var rafræn sökum aðstæðna, var boðið upp á skúffuköku og skrifaði hver árgangur undir staðfestingarsjal sem hengt verður upp í skólanum.

UMMÆLI

Sambíó