Gjörningur og listamannaspjall á laugardaginn í ListasafninuMynd/listak.is

Gjörningur og listamannaspjall á laugardaginn í Listasafninu

Laugardaginn 28. júní verður mikið um að vera á Listasafninu á Akureyri þar sem boðið verður upp á listamannaspjall við Þóru Sigurðardóttur kl. 15 undir stjórn Ann-Sofie N. Gremaud, klukkan 14 sýnir Katrin Hahner gjörning í tengslum við þátttöku hennar í samsýningu norðlenskra listamanna, Mitt rými.

Sýning Þóru Sigurðardóttur var opnuð 17. maí síðastliðinn og hefur hlotið afar góðar viðtökur, en listgagnrýnandi Morgunblaðsins gaf sýningunni til að mynda hæstu einkunn. Á sýningunni má sjá ný verk sem eiga rætur sínar í áratugalöngum áhuga hennar á efni, rými og teikningu. Líkaminn, næmi hans, efni, staða og hreyfing eru mikilvæg viðfangsefni listakonunnar. Í verkunum beinist athyglin að náttúruumhverfi lífverunnar: kalki, kolum, málmum, lífrænum himnum, trefjum og úrgangi.

Katrin Hahner er mynd- og hljóðlistamaður sem býr bæði á Íslandi og í Þýskalandi. Hún lauk MA gráðu frá Staatliche Akademie der bildenden Künste Stuttgart 2006 og Kunsthochschule Berlin Weissensse 2008. Innsetning Hahner inniheldur tjaldstrúktúr sem bíður upp á vernd og nánd, hringlaga verk úr handgerðum leirmunum og vídeó-skrásetningu af sorgar-ritúali, sem virðingarvottur við nýtt tilverustig.

Titill vídeóverksins Hypercycle Jazz vísar til kenningar Manfred Eigens um hypercycle; hugmyndar um sjálfbærar hringrásir samtengdra ferla, þar sem hver þeirra virkar hvetjandi á þá næstu. Þessari jákvæðu hringrás endurgjafar mætti líkja við kærleika til manneskju sem er látin. Að tengja þetta fyrirbæri við jazz-spuna gefur til kynna leið til að skilja framtíðarhegðun og ólínulegt hreyfiafl, sem og órofið samhengi forfeðranna og skyldleika við allar lifandi verur.

Lesa má nánar á vef Listasafnsins.

UMMÆLI