Góður árangur af heilsueflandi móttökum fyrir einstaklinga með sykursýki

Góður árangur af heilsueflandi móttökum fyrir einstaklinga með sykursýki

Niðurstöður nýrrar rannsóknar um árangur af heilsueflandi móttöku fyrir einstaklinga með sykursýki 2 sýna ótvíræðan árangur þeirra. Þetta kemur fram í umfjöllun um rannsókn og niðurstöður Matthildar Birigsdóttur í Tímariti hjúkrunarfræðinga.

Matthildur sem er hjúkrunarfræðingur á HSN á Blönduósi, lauk nýverið meistaranámi þar sem hún vann rannsókn um árangur af hjúkrunarstýrðum móttökum innan heilsugæslunnar fyrir einstaklinga með sykursýki 2. Námið sótti hún samhliða störfum, með stuðningi frá HSN sem hluta af endurmenntunaráætlun stofnunarinnar. 

Hjúkrunarstýrðar móttökur, eða heilsueflandi móttökur, leggja áherslu á að veita þverfaglega og heildstæða þjónustu við einstaklinga með langvinn heilsufarsvandamál, svo sem sykursýki. Þær eru leiddar af hjúkrunarfræðingum í samstarfi við aðra sérfræðinga og leggja áherslu á forvarnir og bætt lífsgæði. Markmið rannsóknarinnar var að meta árangur slíkrar eftirfylgni við einstaklinga með sykursýki, auk þess að skoða veitta þjónustu og rýna í lyfjanotkun þeirra. Hún byggði á megindlegum, afturvirkum gögnum frá HSN á Dalvík og í Fjallabyggð yfir tveggja ára tímabil og niðurstöður voru síðan bornar saman við alþjóðleg viðmið. 

„Mér fannst ég sjálf ekki hafa nægilega skýra mynd af stöðunni og vildi að verkefnið mitt gæti gagnast bæði fagfólki og skjólstæðingum. Ég vann út frá gögnum úr sjúkraskrám og hafði því ekki bein samskipti við þátttakendur, en alls voru 88 einstaklingar til skoðunar í rannsókninni. Þeir höfðu gengist undir tvær langtímablóðsykursmælingar með a.m.k. sex mánaða millibili á árunum 2019–2020.“  

Niðurstöður sýna fram á mikla gagnsemi heilsueflandi móttöku 

Við greiningu á sykursýki er staða langtímasykurs (blóðsykurs) mæld með blóðprufu sem gefur yfirsýn yfir stöðuna síðustu þrjá mánuði, en einstaklingur þarf að hafa ákveðin gildi yfir ákveðinn tíma fyrir rétta greiningu. „Í byrjun og árlega eftir það er gerð ítarleg skoðun sem mælir blóðsykur, en líka blóðfitu og nýrnastarfsemi; fætur eru skoðaðir, þyngd, blóðþrýstingur og lyfjanotkun rýnd. Síðan er fylgst með blóðsykri á sex mánaða fresti og metið hvort meðferð skilar árangri.“  

Helstu rannsóknarniðurstöður sýndu fram á að gildi blóðsykurs (langtímasykurs HbA1c) lækkaði marktækt hjá stórum hluta þátttakenda við meðferð. „Við seinni mælingu, eftir sex mánuði, náði 72,7% þátttakenda þeim alþjóðlegu viðmiðum sem við miðum við í meðferð við sykursýki 2.“ Í rannsókninni kom einnig fram áberandi mikil aukning á lyfjanotkun tengdri þyngdarstjórnun í meðferðum.  

„Sykursýki er oft dulinn sjúkdómur sem í seinni tíð er talinn meira tengjast erfðum þó aðrir þættir spili vissulega inn í eins og ofþyngd. Í heilsueflandi móttökum styðjum við skjólstæðinga við að breyta lífsstíl fyrir betri heilsu og að stjórna þyngd er einn hluti af því. Við veitum ráðgjöf um hreyfingu, mataræði og getum vísað áfram eftir þörfum til lækna eða næringarfræðinga. Rannsóknin sýnir okkur svart á hvítu að þessar móttökur eru að virka mjög vel, unnið er eftir ákveðnum klínískum leiðbeiningum og skipulagi og það er að sýna árangur á meðal þeirra sem taka þátt. Fólk vill taka meiri stjórn á eigin heilsu og kann að meta þann stuðning sem þau fá í móttökunni. Þetta er samvinnuverkefni, fólk þarf að vinna vinnuna, en fær reglulega stöðutöku og hvatningu. Í raun verður þetta lífsstíll og því ævilangt ferli að viðhalda árangrinum af meðferð. Eftirfylgni heldur fólki á tánum og styður við jákvæða framvindu, getur jafnvel dregið úr lyfjanotkun og aukið þannig lífsgæði.“ 

Fjallað er nánar um málið á vef HSN og í Tímariti hjúkrunarfræðinga.

UMMÆLI