beint flug til Færeyja

„Góður vettvangur fyrir ung skáld á Akureyri til að koma sér á framfæri“

Ungskáldin Oddur, Sölvi og Anna Kristjana. Mynd: Kobrún Ýrr Bjarnadóttir.

Verðlaunaafhending í verkefninu Ungskáld 2017 fór fram í síðustu viku á Amtsbókasafninu á Akureyri. Að verkefninu Ungskáld á Akureyri standa Amtsbókasafnið, Akureyrarstofa, Ungmenna-Húsið, MA og VMA með stuðningi Menningarráðs Eyþings. Þetta er samkeppni fólks á aldrinum 16-25 ára um best ritaða textann. Markmiðið er að veita ritlist ungs fólks meiri athygli og hvetja þau til að skapa. Veitt voru verðlaun fyrir fyrsta, annað og þriðja sæti.

Dagskráin á verðlaunaafhendingunni var vel heppnuð en henni stýrði Snorri Björnsson, kennari í VMA og fulltrúi skólans í verkefninu.

Dómnefndin að þessu sinni var skipuð þeim Sesselíu Ólafsdóttur, Vilhjálmi Bergmann Bragasyni og Þórgunni Oddsdóttur. Sú síðastnefnda var fjarri góðu gamni en 2/3 af dómnefndinni, sem kallar sig stundum Vandræðaskáld, tilkynnti úrslit og söng tvö lög við góðar undirtektir. Nýnemi í Verkmenntaskólanum á Akureyri, Þórdís Elín Bjarkadóttir, söng líka fallega og spilaði á gítar.

Þátttakendur í ritlistarkeppninni í ár voru 20 talsins og sendu þeir inn 38 verk. Úrslitin urðu á þann veg að í 1. sæti var Sölvi Halldórsson með verkið „Æfingaakstur“, í 2. sæti Oddur Pálsson með verkið „Maríutásur“ og í 3. sæti Anna Kristjana Helgadóttir með verkið „Djöfullinn“.

Sigurvegarinn Sölvi Halldórsson er 18 ára Akureyringur á fjórða ári sínu í Menntaskólanum á Akureyri. Í spjalli við Kaffið segist Sölvi alltaf hafa verið frekar smeykur við umferðina og undanfarið hafi hann hugsað mikið um hversu auðvelt sé að lenda í bílslysi. Ljóðið Æfingaakstur sé sprottið upp úr vangaveltum sem leita á hann undir stýri.

Sölvi segist hafa byrjað að yrkja þegar hann byrjaði í framhaldsskóla. „Fyrir u.þ.b. ári síðan fór ég svo að leggja aukinn tíma og metnað í að skrifa og líka lesa aðra höfunda. Mig langar til að gefa út ljóðabók í framtíðinni en líka máta mig við önnur form skáldskapar. Ég vil starfa við ritstörf.“

Hann segist kunna mjög vel að meta verkefni eins og Ungskáld. „Mér finnst samkeppnin góð hvatning til að skrifa og líka góður vettvangur fyrir ung skáld á Akureyri að koma sér á framfæri. Síðan hef ég nokkrum sinnum sótt ritsmiðjur á vegum sem Ungskáld hefur staðið fyrir í samstarfi við Andra Snæ Magnason, Kött Grá Pje og nú síðast Hildi Knútsdóttur.“

Ljóðið Æfingaakstur eftir Sölva Halldórsson má sjá hér að neðan.

Sambíó

UMMÆLI