beint flug til Færeyja

Góðvinir færðu Háskólanum á Akureyri stofnfjársjóð


Í tilefni 30 ára afmælis Háskólans á Akureyri hafa Góðvinir safnað í og sett á fót stofnfjársjóð. Sjóðurinn á sér fyrirmynd í Bandaríkjunum og nefnist þar endowment fund. Hlutverk hans er að safna fé sem ætlað er að styðja við og efla starf háskólans, en á þann hátt að einunigs vextirnir eru notaðir til að úthluta fé til valinna verkefna á meðan höfuðstóllinn stendur óhreyfður.

„Við erum með þessu móti að hugsa til framtíðar, eitthvað sem Íslendingar hafa ekki alltaf verið mikið fyrir, en við teljum þetta vera fjárfestingu til frambúðar og eftir önnur 30 ár munum við jafnvel klappa okkur á bakið fyrir þetta framtak,“ segir Brynhildur Pétursdóttir, formaður Góðvina, sem afhenti gjöfina á hátíðardagskrá í tilefni afmælisins á sunnudaginn var.

Góðvinir Háskólans á Akureyri eru samtök nemenda sem brautskráðir eru frá Háskólanum á Akureyri og annarra velunnara háskólans. Öllum býðst að gerast félagsmenn en fyrirtækjum og stofnunum býðst auk þess fyrirtækjaaðild.

„Góðvinir hafa í gegnum árin styrkt mikilvæg verkefni innan háskólans, svo sem kaup á búnaði, nú eða Vísindaskóla unga fólksins. Það er okkur ofarlega í huga að efla tengslin við fyrrverandi nemendur og aðra velunnara skólans og í gegnum Góðvini hefur það tekist með ágætum,“ segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri.

UMMÆLI