Græn skref sveitarfélaga á Norðurlandi eystra

Græn skref sveitarfélaga á Norðurlandi eystra

Á nýju ári mun sveitarfélögum SSNE standa til boða að innleiða Græn skref í starfsemi sína. Græn skref Norðurlands Eystra munu byggja á verkefninu Græn skref í ríkisrekstri sem Umhverfisstofnun heldur utan um. Grænu skrefin eru orðin mörgum kunnug, enda skulu allar stofnanir ríkisins innleiða þau í starf sitt.

Grænu skrefin taka til margra helstu umhverfisþátta stofnanastarfsemi, s.s. samgangna, orkunotkunar, úrgangs, innkaupa, mötuneytisstarfsemi og kaffistofa, fundahaldi, viðburðum og miðlun og stjórnun.

Græn skref á Norðurlandi eystra munu byggja á Grænum skrefum í ríkisrekstri, en vera aðlöguð að starfsemi sveitarfélaga og með landsvæðið í huga. Innleiðing Grænna skrefa byggir á gátlistum sem vinnustaðir fara í gegnum og jafnt og þétt byggist upp vandað umhverfisstjórnunarkerfi, sem er síðan skjalfest í fimmta og seinasta skrefinu.

Starfsfólk SSNE vonast eftir því að verkefninu verði vel tekið af sveitarfélögum og að það muni aðstoða þau við að uppfylla lögbundnar skyldur í umhverfismálum.

Frekari upplýsingar um verkefnið munu birtast á nýju ári og boðað til kynningarfundar. Ef spurningar vakna í millitíðinni má beina þeim til Kristínar Helgu; kristinhelga@ssne.is

Frétt úr fréttabréfi SSNE sem má nálgast í heild sinni hér.

UMMÆLI