Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, vakti máls í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í gær uppsagnar ferliverkasamningum við sérfræðilækna á Sjúkrahúsinu á Akureyri, SAk.
„Það er ljóst að þjónustan mun dragast verulega saman ef ekki finnst lausn á málinu,“ sagði Ingibjörg og benti á að um væri að ræða 13 sérgreinalækna á sviðum hjarta-, krabbameins-, kvensjúkdóma-, meltingar- og lyflækninga.
„Staðan á sjúkrahúsinu er því grafalvarleg. Um er ræða 13 sérgreinalækna í hjarta-, krabbameins-, kvensjúkdóma-, meltingarfæra- og lyflækningum, þjónustu sem íbúar á Norðurlandi og víðar hafa hingað til getað treyst á og er okkur nauðsynleg. Þetta veldur eðlilega miklum áhyggjum, ekki aðeins meðal starfsfólks og sjúklinga heldur einnig heilsugæslulækna á upptökusvæði SAk og lækna á Landspítala sem sjá ekki fram á að geta tekið við öllum þeim sjúklingum sem munu þá leita suður ef þjónustan fæst ekki lengur á Akureyri. Þetta er því, má segja, kerfislægt vandamál, ekki staðbundið,“ sagði Ingibjörg.
Heilbrigðisráðherra, Alma D. Möller, greindi frá því að hún hefði vikið sæti í málinu vegna skyldleika við einn læknanna. Annar ráðherra muni taka við ákvörðunum til að forðast hagsmunaárekstur. Ingibjörg segir að tryggja verði lausn sem hindri skaða á heilbrigðisþjónustu fyrir íbúa svæðisins.
Ítarlegri umfjöllun um málið má finna á vef mbl.is með því að smella hér.


COMMENTS