
Martha Hermannsdóttir
KA/Þór og Haukar mættust í undanúrslitum Coca Cola bikarsins í handbolta í kvöld. Leiknum var að ljúka með 23-21 sigri Hauka.
Haukar sem eru í 4. sæti í Olís deildinni munu mæta toppliði Fram í úrslitum. KA/Þór eru á toppi Grill 66 deildarinnar en tapið í kvöld var þeirra fyrsta tap á tímabilinu. Liðið hefur náð frábærum árangri og hefur unnið 14 af 15 leikjum sínum í Grill 66 deildinni ásamt því að ná í undanúrslit í Coca Cola bikarnum.
Leikurinn var jafn til að byrja með en í stöðunni 8-8 náðu Haukar að skora 5 mörk í röð og leiddu í leikhléi 13-8. KA/Þór stúlkur gáfust ekki upp og náðu að minnka muninn í 13-11 í upphafi síðari hálfleiks.
Þær náðu þó aldrei að jafna leikinn þrátt fyrir að komast ansi nálægt því oft á tíðum en Elín Jóna Þorsteinsdóttir var frábær í marki Hauka og varði 12 skot. Leiknum lauk að lokum með 23-21 sigri Hauka eftir æsispennandi lokamínútur.
Martha Hermannsdóttir var markahæst í liði KA/Þór með 6 mörk, öll úr vítaköstum. Hulda Bryndís Tryggvadóttir skoraði 4 mörk og þær Ásdís Guðmundsdóttir og Kara Rún Árnadóttir þrjú mörk hvor.
Þrátt fyrir tapið geta KA/Þór gengið stoltar frá keppni eftir hetjulega baráttu. Að komast í undanúrslit bikarsins sem lið í næst efstu deild verður að teljast góður árangur.
UMMÆLI