Gringlo frumsýna nýtt lag og myndband

Hljómsveitin Gringlo sendi í dag frá sér sitt fyrsta tónlistarmyndband við lagið Light of New Day Hljómsveitin gekk áður undir nafninu Gringlombian.

Ivan Mendez söngvari og stofnandi sveitarinnar segir að upptökur á laginu Light of New Day hafi gengið vel fyrir sig. Það var tekið upp í Hofi á Akureyri síðasta haust. Myndbandið var svo tekið upp stuttu eftir að tökum á laginu lauk. Þetta er fyrsta lag Gringlo sem tekið er upp í stúdíó.

„Þar sem þetta er fyrsta lagið sem við tökum upp í stúdíói og jafnframt fyrsta myndband sem við gefum frá okur var mér mjög mikilvægt að vanda alla vinnu. Ég vil auðvitða ávalt reyna að gera mitt besta. Það má segja að það hafi farið blóð sviti og tár í þetta,“ segir Ivan.

„Hugmyndin af myndbandinu var búin að vera að veltast í höfðinu á mér í svolítin tíma. Ég tók eina góða kvöldstund í að skrifa handrit og stuttu seinna hafði ég samband við Þorberg Erlendsson myndatökumann. Við funduðum ásamt hljómsveitarmeðlimum og ég útskýrði með skemmtilega leikrænum tilþrifum hvernig ég sæi þetta fyrir mér. Það leyst öllum vel á hugmyndina svo að strax næsta dag hófst leitin af leikmunum og leikurum. Það eru þau Símon Birgir Stefánsson og Þórdís Elín Bjarkadóttir sem fara með aðalhlutverk í þessu myndbandi. Ég þurfti ekki að leita langt yfir skammt í leit af leikkonu en Þórdís Elín er systir Guðbjörns, bassaleikara hljómsveitarinnar. En hún var mér efst í huga þegar ég skrifaði handritið. Símon Birgi komst ég síðan í samband við í gegnum LMA.“

Myndbandið var tekið upp á tveimur dögum víðsvegar um Eyjafjörð og fékk Ivan góðan vin sinn, Davíð Oddgeirsson til að aðstoða við tökur.

„Ég vil helst ekki uppljóstra of miklu um viðfangsefni myndbandsins því ég vil heldur að fólk túlki það á sinn eigin hátt, enda er nægilegt svigrúm til að leyfa huganum að reika þó að symbólíkin sé vitaskuld sterk. En eins og alltaf er einhver undirliggjandi boðskapur eða tilfining sem mig langar að miðla, eitthvað sem hjartað vill segja.“

Hljómsveitin Gringlo hefur verið áberandi í tónlistarlífi Akureyrar undanfarið ár. Hljómsveitin gaf út lagið Paper Bags í lok síðasta árs. Þá spiluðu þau víða um landið á tónleikum, meðal annars á Iceland Airwaves tónleikahátíðinni. Ivan segir að Gringlo sé bara rétt að byrja.

„Eins og er erum við í studio Hofi, með Sigfúsi Jónssyni, að taka upp EP plötu sem er væntanleg í vor. Á henni verða 4-5 lög ásamt introi sem má heyra bút af í byrjun myndbandsins. Við munum síðan spila næsta föstudag í Hofi á árshátíð Tónlistafélags Akureyrar en ég tel að við tökum því rólega í spilamennsku á næstu mánuðum til að geta gefið okkur tíma í að klára plötuna og sinna okkar eigin einstaklings verkefnum. Þessa dagana er ég líka að æfa með Karlakór Akureyrar Geysi. Á vortónleikum kórsins verða meðal annars tekin lög sem ég hef samið fyrir Gringlo, í kórútsetningum eftir Hjörleif Örn Jónsson.“

Myndbandið við lagið Light of New Day með Gringlo má sjá hér að neðan. Þess má geta að gítarinn sem Ivan er með í myndbandinu smíðaði hann sjálfur.

UMMÆLI

Sambíó