GRINGLO gefur út plötu og efnir til útgáfutónleika

GRINGLO gefur út plötu og efnir til útgáfutónleika

Akureyrska hljómsveitin GRINGLO gaf á dögunum út plötuna From Source to the Ocean – a Tale of Two Rivers. Platan inniheldur 12 lög og er samsett úr tveimur EP plötum, “From Source” og “To the Ocean”.

Ivan Mendez, söngvari GRINGLO, segir að platan sé nokkurs konar konsept plata í tveimur hlutum sem segi frá ferðalagi brotinnar sálar í leit að eigin tilgangi.

„Sagan gerist ekki línulega en það má segja að hvert lag sé lítið brot úr heildarsögunni, sem gefur hlustendanum tækifæri á að skyggnast inn í augnablik og minningar. Það er svosem ekkert leyndarmál og auðvitað frekar augljóst að sagan er um mig sjálfan,“ segir hann.

„Það var mikil tilfinningalosun að koma þessu verki frá sér. Meðgangan, tónsmíðarnar, útsetningar vinnan, upptökuferlið og framleiðslan eru búin að taka u.þ.b 4 ár í heildina. Ég get orðið frekar manískur þegar það kemur að hugmyndarvinnu, það eru ýmsar pælingar á bakvið söguþráðinn og artworkið sem að munu aldrei lýta dagsins ljós en gefa þó heildarmyndinni meiri dýpt þegar upp er staðið.“

Hljómsveitin mun fylgja plötunni eftir með útgáfutónleikum í Svarta boxinu í Hofi. Aðeins verða haldnir þessu einu tónleikar en eftir það mun hljómsveitin láta af störfum.

„Það má með sanni segja að við ætlum að klára þetta með hvelli. Við erum búnir að fá til liðs við okkur strengja kvartett, blásara, slagverksleikara og bakraddahóp. Það hafa verið mjög stífar æfingar undanfarið og mikið púður farið í það að æfa og pússa hvert einasta smáatriði fyrir tónleikana. Þetta verða viðamestu tónleikar sem við höfum staðið fyrir til þessa,“ segir Ivan um tónleikana.

„Þessir tónleikar marka ákveðin endi en einnig nýtt upphaf hjá okkur öllum. Þetta verða ekki einungis útgáfutónleikarnir okkar heldur líka lokatónleikarnir okkar. Arnar, trommarinn okkar, er að flytja suður og ég er að fara að flytja til Berlínar í haust til að fara í háskóla.“

Ivan segir að það séu blendnar tilfinningar að kveðja hljómsveitina en að það sé kominn tími á eitthvað nýtt.

„Nú vona ég að tónlistin eignist sitt eigið líf og muni hjálpa öðrum líkt og hún hefur hjálpað mér. Ég segi bless með smá sandkorni í auga en bros á vor. Ævintýrið er bara rétt að byrja.“

Miðasala á tónleikana er hafin inn á Mak.is til að kaupa miða eða lesa nánar um viðburðinn getur þú smellt hér.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó