GRL PWR tónleikar á Græna Hattinum: „Við erum að tryllast“

GRL PWR tónleikar á Græna Hattinum: „Við erum að tryllast“

Hljómsveitin GRL PWR kemur fram á Græna Hattinum í kvöld. GRL PWR er verkefni sem einblínir á að peppa konur í tónlist og spila tónlist með konum.

Grunnmeðlimir sveitarinnar eru söngkonurnar Salka Sól Eyfeld, Elísabet Ormslev, Stefanía Svavars, Þuríður Blær og Karó. Karitas Harpa, Svala og GDRN hafa einnig slegist með í hópinn.

Salka Sól segir í samtali við Kaffið.is að mikil spenna sé í hópnum fyrir tónleikana á Akureyri.

„Við erum að tryllast. Þetta verða síðustu tónleikarnir okkar í einhvern tíma svo að spenningurinn er mikill,“ segir Salka.

GRL PWR eru þekktar fyrir góða stemningu á tónleikum sínum. Hljómsveitin hefur verið að koma mikið fram á árshátíðum og slíku en aðalgigg hljómsveitarinnar í sumar verður á Þjóðhátíð í Eyjum.

Salka segir að þær stefni á að mynda geggjaða stemningu á Græna Hattinum í kvöld.

„Um síðustu helgi á Gauknum myndaðist einhver stórkostleg og sterk stemning þar sem allir dönsuðu og sungu með allan tímann. Við stefnum á sama partí í kvöld.“

Miðasala fer fram á Tix.is

UMMÆLI