Prenthaus

Grunaður um að hafa stolið milljónum af eldri manni í Hrísey

Grunaður um að hafa stolið milljónum af eldri manni í Hrísey

Lögreglan á Akureyri rannsakar nú mann sem er grunaður um að hafa rænt 2,8 milljónum króna af 83 ára gömlum manni í Hrísey með því að millifæra af debetkorti hans á aðra bankareikninga. DV greindi fyrst frá málinu á föstudag.

Í DV í dag segir að meintur ræningi hafi dvalist í húskofa á lóð gamla mannsins í nokkra daga og að hann hafi komið inn í hús hans til að sinna þrifum.

„Helvítis kvikindið læddist í kortið mitt. Hann vissi að ég ætti [X] milljónir á reikningnum en hann sagðist ekki hafa kunnað við að taka meira. Einhvern veginn þefaði hann uppi pin-númerið. Ég frétti af því að hann hefði sagt að hann væri að hjálpa gömlum manni sem væri farinn að treysta honum fyrir debetkortinu hans, en það er bara lygi,“ sagði gamli maðurinn í viðtali við DV á föstudag.

Jónas Halldór Sigurðsson, rannsóknarlögreglumaður á Akureyri, segir í samtali við DV að hann sé nú að afla gagna frá bönkunum en málið muni taka tíma. Nú sé verið að feta bankafærsluslóða. Jónas vildi ekki veita frekari upplýsingar um málið og ekki staðfesta nöfn neinna sem tengjast málinu.

UMMÆLI