Samherji tilkynnti á vef sínum í gær að Gústaf Baldvinsson muni láta af daglegum störfum hjá samstæðu Samherja í júní eftir þrjátíu ára starf. Gústaf hefur verið framkvæmdastjóri Ice Fresh Seafood frá því að félagið var stofnað árið 2007 til að selja og markaðssetja afurðir Samherja á alþjóðlegum mörkuðum. Samhliða því hefur hann verið framkvæmdastjóri Seagold í Bretlandi sem hann stofnaði ásamt Samherja árið 1996.
Hermann Stefánsson tekur við starfi Gústafs hjá Ice Fresh Seafood. Hermann er sjávarútvegsfræðingur frá Háskólanum á Akureyri, hefur víðtæka stjórnunarreynslu og hefur starfað við sjávarútveg um árabil. Hann var útgerðarstjóri Borgeyjar á árunum 1995-1999, framleiðslustjóri hjá Skinney-Þinganesi 1999-2010, framkvæmdastjóri Iceland-Pelagic 2010-2018 og forstjóri ÍSAM 2018-2024. Hermann hóf störf hjá Ice Fresh Seafood sl. haust og verður staðsettur á Akureyri.


Orri Gústafsson tekur við starfi Gústafs hjá Seagold. Orri er sjávarútvegsfræðingur frá Háskólanum á Akureyri og Tokyo University of Marine Science og er einnig með MBA í alþjóðaviðskiptum. Orri hefur starfað hjá Samherja og dótturfélögum frá 2009, fyrst með námi á árunum 2009-2013, svo hjá Ice Fresh Seafood á Íslandi 2015-2016, í Bandaríkjunum hjá Slade Gorton 2016-2020 og Aquanor 2020-2024 og loks hjá Seagold í Bretlandi frá 2024. Orri verður staðsettur í Bretlandi.
Þótt Gústaf láti nú af daglegum störfum mun hann vera félögunum til ráðgjafar næsta árið.
Á þessum tímamótum voru kveðjuorð Gústafs þessi:
„Það eru forréttindi að hafa fengið að taka þátt í þeirri vegferð sem vöxtur Samherja hefur verið síðustu 30 árin. Ég hef orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að vinna með framúrskarandi fólki á öllum vígstöðum og hverf ég þakklátur frá borði vitandi að ég skil við félagið í góðum höndum. Ég er sannfærður um það að með þann mannauð sem fyrirtækið býr að verður framtíð þess áfram björt.“
UMMÆLI