Gyða Dröfn – „Stóri draumurinn að reka mitt eigið fyrirtæki“

Gyða Dröfn

Gyða Dröfn

Gyða Dröfn Sveinbjörnsdóttir er 24 ára lífstílsbloggari, förðunarfræðingur, snapchattari, háskólanemi, flugfreyja og athafnakona. Það má með sanni segja að Gyða sé með þó nokkra bolta á lofti í einu en blaðamaður Kaffisins tók viðtal við hana á dögunum til að fá að vita meira um Gyðu og allt sem er í gangi hjá henni þessa dagana.

Gyða er núverið að klára BSc háskólagráðu en hún er að læra Sálfræði við Háskólann í Reykjavík og stefnir á að útskrifast þaðan næsta vor. Með BS ritgerðarskrifum og skóla er hún einnig að vinna sem flugfreyja hjá WOW-air, blogga á bloggsíðunni sinni www.gydadrofn.com og að leyfa fylgjendum sínum að fylgjast með þessu öllu saman á Snapchat. Einnig reynir hún að taka að sér farðanir þegar tími gefst en Gyða lærði förðun hjá Reykjavík Makeup School.

Gyða vinnur sem flugfreyja.

Gyða vinnur sem flugfreyja.

Aðspurð segist Gyða kunna langbest við sig þegar mest er að gera og það séu í rauninni engir hefðbundnir dagar í hennar lífi.

„Það er eiginlega enginn dagur eins sem mér finnst líka ótrúlega skemmtilegt. Stundum vakna ég klukkan þrjú á næturnar til að fara í morgunflug en aðra daga kannski ekki fyrr en um hádegi. Ég reyni svo alltaf að komast í ræktina en líkamsrækt skiptir mig miklu máli. Ég spila þetta eiginlega bara allt eftir því hvað er að gerast hverju sinni og reyni að koma öllu sem ég þarf að gera fyrir – ég væri samt alveg til í nokkra auka klukkutíma í sólahringinn ef einhver á aflögu!“ segir Gyða en hún virðist hafa alveg meira en nóg á sinni könnu.

Það lá beinast við að spyrja Gyðu hvað af öllu þessu sem hún er að gera finnist henni standa mest upp úr og hvort að það sé eitthvað sem henni finnst mega missa sín. Gyða fullyrðir þó að henni finnist lang skemmtilegast að hafa þetta eins og það er, allt saman í bland.
„Bloggið mitt er minn staður til að tjá mig og fá útrás fyrir skapandi persónuleikann minn og Snapchat er það að vissu leyti líka. Mér líður svo alltaf vel þegar ég er að farða en ég hef alltaf haft sterka þörf fyrir að skapa og fæ útrás þar líka. Ég vil svo meina að ég eigi vel heima í flugfreyjustarfinu, enda alltaf þótt gaman að vera á ferð og flugi. Í fluginu er enginn dagur eins, og maður hittir nýtt fólk á hverjum degi – sem mér finnst æðislegt.“

Draumurinn að stofna sitt eigið fyrirtæki og vörumerki
Það brennur eflaust á mörgum að vita hvað sé framundan hjá Gyðu og mörgum hefur þótt skemmtilegt að fylgjast með henni í gegnum árin og hvernig vinsældir hennar fara sífellt vaxandi. Það verður seint sagt um Gyðu að hún hafi lítið að gera og því mjög líklegt að hún sé með eitthvað spennandi í pokahorninu.
Það eru margir spennandi hlutir framundan á næstu mánuðum. Ég er að gera ótrúlega skemmtilega hluti með samfélagsmiðlana mína sem ég er virkilega spennt fyrir. Annars er ég að reyna að einbeita mér að því að klára skólann, en planið er að taka mér smá pásu áður en ég fer í mastersnám, en það langar mig að gera erlendis. Stóri draumurinn er svo alltaf að reka og eiga mitt eigið fyrirtæki og vörumerki og ég vona að hann rætist einn daginn“, segir Gyða án þess að gefa of mikið upp um framtíðina.

Gyða bloggar um allt tengt útliti og lífstil. Hér er hún með heimatilbúinn maska sem hún vann að sjálf.

Gyða bloggar um allt tengt útliti og lífstíl. Hér er hún með heimatilbúinn maska sem hún vann að sjálf.

Þúsundir fylgjenda á Snapchat
En hvernig gerðist þetta allt hjá henni? Hvenær varð Gyða með svona marga fylgjendur á Snapchat og eina vinsælustu bloggsíðu landsins?

„Áður en ég stofnaði bloggið þá könnuðust margir við mig úr fitnessheiminum, en ég hef keppt nokkrum sinnum í módelfitness. Eftir að ég stofnaði bloggið fór svo ennþá meira að gerast, en stofnun þess var liður í að vinna í sjálfri mér eftir erfitt tímabil í mínu persónulega lífi. Þegar ég byrjaði svo í skólanum fékk ég líka tækifæri til að vinna að skemmtilegum verkefnum tengdum honum en ég hef til dæmis setið í stjórn nemendafélags, ritsjórn háskólablaðsins, verið í árshátíðarnefnd og markaðsstjórn frumkvöðlakeppninnar Gulleggsins. Eftir að ég flutti suður fékk ég líka ennþá fleiri tækifæri til að vinna skemmtileg verkefni tengd blogginu og þá fyrst fór eiginlega allt á stað – og ég hef ekki stoppað síðan!“


Suma daga langar mann bara að vera heima og kúra upp í rúmi, en svo stend ég sjálfa mig að því aftur og aftur að ég kann ekki að gera ekki neitt.“

Þessu svaraði Gyða aðspurð hvort að öll þess verkefni yrðu aldrei of mikið fyrir hana. Þá segir hún að það sé mikilvægt að ögra sjálfum sér og vera duglegur að setja sér markmið. Hún segist þó hafa kynnst því af fremstu raun að maður má aldrei gleyma að hugsa um sjálfan sig og því sé svefn t.d. mjög ofarlega á forgangsröðunarlistanum hennar.
Gyða segist ekki eiga einhverja eina sérstaka fyrirmynd, þær séu margar og frá mismunandi stöðum.
„Þetta fer eiginlega eiginlega algjörlega eftir því í hverju ég er að vinna í, hvaða fyrirmynda ég horfi til, en oftast eru það manneskjur sem ég þekki persónulega. Við erum nefnilega öll svo klár á mismunandi sviðum og ég reyni oft að tileinka mér það sem mér finnst aðrir gera vel“, segir Gyða en bætir við að henni finnist mikilvægt að einblína á það að vera alltaf besta útgáfan af sjálfri sér líka.

Dularfulli kærastinn
Gyða Dröfn segist ekki vera í neinum erfiðleikum með að deila hinu og þessu úr hennar persónulega lífi á snapchat en fylgjendum hennar finnst fátt vera þeim óviðkomandi. Kærastinn hennar Gyðu er ekki alveg eins mikið í því að deila sínu lífi með öðrum og fannst þetta frekar óþægilegt svona þegar sambandið þeirra var á þessum fyrstu skrefum:
„Þegar ég og kærastinn minn byrjuðum að hittast fóru fljótt spurningar að berast um hvort að ég væri að hitta einhvern, með hverjum ég væri þegar ég var að gera hitt og þetta o.s.fv. Greyið kærastinn minn er ekki alveg jafn mikið í því að deila lífi sínu með öðrum eins og ég og honum fannst þetta frekar óþægilegt fyrst. Við höfðum samt mjög gaman af því líka og svo þegar loksins kom að því að birta fyrstu myndina af honum á samfélagsmiðlum var hann með matseðil fyrir öllu andlitinu. Ég held að fylgjendum mínum hafi fundist það jafn fyndið og okkur.“

Gyða nýtur þess að ferðast um heiminn.

Gyða nýtur þess að ferðast um heiminn.

Akureyri alltaf í uppáhaldi
Gyða Dröfn er fædd og uppalin á Akureyri en flutti til Reykjavíkur eftir að menntaskólagöngunni lauk. Hún hefur nú búið fyrir sunnan í nokkur ár en er alltaf með annan fótinn á Akureyri, að hennar sögn. Hún segist þó ekki hugsa sér að flytja norður á næstu árum en það sé aldrei að vita seinna meir.
„Ég nýti frídaga í að kíkja heim og finnst fátt notalegra en veturinn á Akureyri. Ég get heldur ekki hugsað mér annað en að vera yfir jóla og áramótatímann á Akureyri, þó ég ætli reyndar að eyða aðfangadegi sjálfum í Þýskalandi í ár, en kærastinn minn á fjölskyldu þar. Við brunum svo beint norður þegar við komum að utan og eyðum afganginum af jólunum heima“, segir Gyða en hún er mikið jólabarn og vill helst eyða desember mánuði á Akureyri í faðmi fjölskyldu og vina. Enda jafnast ekkert á við Akureyri um jólin.

Skemmdarvargur í eldhúsinu
Gyða bloggar mikið um ýmsar uppskriftir sem hún yfirleitt býr til sjálf og fjallar um á Snapchat. Hún einblínir mikið á hollustu og hefur birt ófáar uppskriftir af kökum eða góðgæti sem er ekki stútfullt af kaloríum. Hún segir það ganga oft á ýmsu þegar hún er að vinna eitthvað fyrir bloggið og þá sérstaklega eitt sumarið þegar móðir hennar var líklega komin á það stig að henda dótturinni út fyrir brussuskap. Gyða segir:
„Eitt sumarið fékk ég hrákökur á heilann og vann statt og stöðugt að því að fullkomna hrákökuuppskrift sem ég ætlaði síðan að deila á blogginu mínu. Þetta sumar bjó ég ennþá heima hjá foreldrum mínum og ég held að móðir mín hafi alls ekki verið langt frá því að henda mér út. Í tilraunastarfseminni skemmdi ég nefnilega heila þrjá blandara og braut hníf, en ég er ekki þekkt fyrir að vera mjög pen þegar ég er eitthvað að dunda mér í eldhúsinu. Greyið mamma sat eftir með fullan frysti af misheppnuðum hrákökum og ónýtan blandara. Ég reyndi nú samt að líma saman hnífinn.“

image-10-11-2016-at-17-49

Gyða við förðunarstörf vopnuð brjáluðu burstasetti.

Það verður virkilega gaman að fylgjast með Gyðu Dröfn í framtíðinni og óskum við henni alls hins besta með öll þessi frábæru verkefni.

UMMÆLI