Akureyrarbær, Vinir Akureyrar og Lögreglan á Norðurlandi eystra hafa gefið út sameiginlega yfirlýsingu vegna verslunarmannahelgarinnar á Akureyri. Yfirlýsinguna má lesa hér að neðan en hún birtist á vef bæjarins í dag:
Fjölskylduhátíðin Ein með öllu verður ekki haldin með hefðbundnu sniði á Akureyri um verslunarmannahelgina og brugðið verður út frá venjum í veigamiklum atriðum. Er það gert vegna Covid-19 faraldursins. Á tjaldsvæðum bæjarins verður aldurstakmark hækkað í 20 ár í því skyni að auðvelda fjöldatakmarkanir og forgangsraða í þágu fjölskyldufólks.
Sjá einnig: Tvö tívolí boða komu sína til Akureyrar yfir Verslunarmannahelgina
Í boði verða litlir fjölskylduvænir viðburðir víðs vegar um bæinn og tryggt að fullorðnir gestir á einstökum stöðum verði aldrei fleiri en 500 í samræmi við þau mörk sem sett eru af sóttvarnaryfirvöldum. Stórir útitónleikar í miðbænum verða ekki á dagskrá né heldur Sparitónleikar á flötinni við Samkomuhúsið á sunnudagskvöld. Þá verður skemmtistöðum lokað kl. 23 öll kvöld eins og reglur segja til um.
Með þessu vilja skipuleggjendur hátíðarinnar sýna ábyrgð en gefa fjölskyldufólki engu að síður tækifæri til að gera sér dagamun á Akureyri um verslunarmannahelgina.
Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri segir að Akureyri hafi verið afar vinsæll áfangastaður í allt sumar og verði það líka um verslunarmannahelgina. „Það er að mínu mati einboðið að halda ekki hefðbundna hátíð en í lagi að bjóða upp á hófstillta viðburði sem fyrst og fremst eru miðaðir að fjölskyldufólki. Það er hins vegar mikilvægt að heimamenn og gestir sýni mikla ábyrgð, virði fjöldatakmarkanir og gæti að persónulegum sóttvörnum eins og ávallt. Þessum faraldri er því miður hvergi nærri lokið,“ segir Ásthildur.
Davíð Rúnar Gunnarsson er framkvæmdastjóri Viðburðastofu Norðurlands sem stendur fyrir skipulagningu dagskrár um verslunarmannahelgina fyrir hönd Vina Akureyrar: „Í ár var ákveðið að gæta fyllstu varúðar vegna Covid-19 með því að halda vel utan um einfalda viðburði sem hafa fest sig í sessi og standa vörð um að allt fari fram eftir settum reglum. Til dæmis verður boðið upp á Mömmur og möffins, Kirkjutröppuhlaupið og aðrar fjölskylduvænar skemmtanir. Kannski mætti segja að þetta verði „Ein með frekar litlu“ í ár en við gerum það besta úr aðstæðum og njótum helgarinnar,“ segir Davíð.
Kristján Kristjánsson, yfirlögregluþjónn á Akureyri, segir að lögreglan á Norðurlandi eystra verði með aukinn viðbúnað um helgina. „Bæði til að fylgjast með umferð á þjóðvegum umdæmisins og eins til að fylgjast með að fjöldatakmörkunum og öðrum samkomutakmörkunum sé framfylgt. Þá vill lögreglan beina því til allra að fara varlega og huga vel að eigin sóttvarnaráðstöfunum. Enn eru smit í samfélaginu og því nauðsynlegt að fara eftir þeim reglum og leiðbeiningum sem Almannavarnir og sóttvarnalæknir hafa gefið út. Að lokum minnir lögreglan á að ef fólk þarfnast lögregluaðstoðar þá á að hafa samband við 112,“ segir Kristján.
Ljósmynd: Hilmar Friðjónsson.
UMMÆLI