Hætt við Iceland Airwaves á Akureyri

Hljómsveitin Mammút spilaði í Hofi á Iceland Airwaves hátíðinni í fyrra

Iceland Airwaves tónlistarhátíðin verður ekki haldin á Akureyri í ár líkt og á síðasta ári. Stefnt var á að halda hana aftur á Akureyri en nú hefur verið hætt við það. Ísleifur Þórhallson hjá Sena Live sem sér um rekstur hátíðarinnar staðfesti þetta. Sena Live gekk frá kaupum á Airwaves-hátíðinni nýverið.

Miðasala á hátíðina á Akureyri hefur verið stöðvuð en þeir sem hafa þegar keypt sér miða munu fá endurgreitt.

„Okkur þykir þetta miður en við munum eiga í fullu gangi með að ná rekstrinum í Reykjavík í lag fyrst áður en við getum farið að skoða aðra hluti. Vonandi gengur næsta hátíð vel og þá er hægt að skoða Akureyri aftur; auðvitað mjög gaman að geta verið með Airwaves þar. Við bara verðum fyrst að ná tökum á kjarnarekstrinum hér í Reykjavík og við vonum að Akureyringar sýni því skilning,“ segir Ísleifur.

UMMÆLI