Hafdís Skúladóttir nýr deildarforseti Hjúkrunarfræðideildar HA

Hafdís Skúladóttir nýr deildarforseti Hjúkrunarfræðideildar HA

Hafdís Skúladóttir, dósent við Hjúkrunarfræðideild, tók við sem deildarforseti Hjúkrunarfræðideildar 1. júlí. Hún tekur við stöðunni af Sigríði Síu Jónsdóttur, sem einnig er dósent við deildina og hafði sinnt starfinu í tvö ár. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef HA, unak.is.

Hafdís brautskráðist frá Háskóla Íslands sem hjúkrunarfræðingur árið 1986, er með doktorsgráðu frá sama skóla sem hún lauk 2022 og hóf störf við HA árið 1991. Hún er sérhæfð í langvinnum verkjum, líðan skurðsjúklinga og þróun á matstæki sem notað er til að meta frammistöðu stúdenta í klínísku námi.

Aðspurð hver helsti styrkur deildarinnar sé segir Hafdís að gott starfsfólk sé þar lykilatriði. „Ég veit líka að sveigjanlega námið trekkir að, þar sem hægt er að taka þátt í kennslustundum í fjarfundi eða hlusta á upptökur svo stúdentar stjórni að nokkru marki tímanum sínum. Þá veit ég líka að við reynum að bregðast við óvæntum uppákomum hjá stúdentum og leysa mál í samvinnu við þá.“

Hjúkrunarfræðideildin á Akureyri gerir það að verkum að hægt er að sinna klínísku námi víðar en einungis á höfuðborgarsvæðinu og þannig hefur deildin lagt sitt af mörkum við að auðvelda fólki að fara í námið og auka aðgengi að hjúkrunarfræðingum alls staðar á landinu. Hafdís bætir þó við að samvinna skipti miklu: „Við erum í samstarfi við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands sem opnar á tækifæri fyrir stúdenta og starfsfólk og skiptir miklu máli í þróun á náminu.“

Hjúkrunarfræðideildin býður eftir að nýtt færni- og hermisetur rísi og á síðasta ári var skrifað undir samkomulag um fjárveitingu til að hefja undirbúning og uppbyggingu á slíku setri.

UMMÆLI