Lokahóf knattspyrnudeildar KA fór fram á laugardaginn eftir lokaumferð Bestu deildar karla í knattspyrnu. KA tryggði sér forsetabikarinn í lokaumferðinni en forsetabikarinn er afhentur því liði sem endar efst í neðri hluta deildarinnar. Þetta er þriðja árið í röð sem KA vinnu forsetabikarinn og með því hefur félagið unnið bikarinn til eignar.
Veitt voru einstaklingsverðlaun til leikmanna og það var Hallgrímur Mar Steingrímsson sem hlaut viðurkenningu sem bessti leikmaður KA á tímabilinu. Hallgrímur eða Grímsi átti frábært sumar og var markahæsti leikmaður liðsins.
„Það má með sanni segja að Grímsi sé búinn að endurskrifa sögu knattspyrnudeildar KA en hann er meðal annars bæði leikjahæsti og markahæsti leikmaðurinn í sögu félagsins,“ segir í tilkynningu KA.
Snorri Kristinsson var valinn efnilegasti leikmaður KA á tímabilinu. Snorri er aðeins 16 ára gamall en hefur nú þegar leikið 8 leiki fyrir meistaraflokk KA.
Markmaðurinn Steinþór Már Auðunsson náði þeim merka áfanga að spila sinn 100. leik fyrir KA í sumar og á lokahófinu hlaut hann viðurkenningu fyrir. Þá fékk grillhópur KA-manna Dorrann, verðlaun sem eru veitt dyggum stuðningsmönnum og bakhjörlum KA. Dorrinn er veittur til minningar um Steindór heitinn Gunnarsson, sem lést árið 2011 og var einn af heitustu KA-mönnum á Akureyri.


COMMENTS