Hamingjudagar fyrir leiklistarmenningu á Akureyri

Hamingjudagar fyrir leiklistarmenningu á Akureyri

Hrafndís Bára Einarsdóttir skrifar

Þá hefur það læðst aftan að okkur, eina ferðina enn, blessað haustið. Með sínum mildu dögum og litadýrð. Það þýðir líka að nú hefst leikárið og það er í mínum huga miklir hamingjudagar. 

Leikfélag Akureyrar rýkur af stað inn í metnaðarfullt starfsár með leikverki eftir Samuel Beckett, Hamingjudagar, í leikstjórn Hörpu Arnardóttur með Eddu Björgu Eyjólfsdóttur í aðalhlutverki. 

Fram til þessa hefur Leikfélag Akureyrar, undir stjórn Mörtu Nordal, spilað mjög öruggt og sterkt inn á fjöldann og boðið alla jafna upp á verk og verkefni sem hafa höfðað til breiðs áhorfendahóps. Nú tekur Marta svolítið áhættustökk og velur að prófa að færa Akureyringum leiklist og leiklistarmenningu á svolítið öðru stigi. 

Ég viljandi valdi að kynna mér ekkert um verkið áður en ég fór að sjá það. Sannarlega hafði ég heyrt um Beckett, enda einskonar íkon í leiklistarsögunni, verandi einstakt og fjölhæft skáld. Ég gekk því inn í salinn án þess að hafa svo mikið sem lesið leikskránna. Ég vildi láta koma mér á óvart. 

Mér varð líka sannarlega óvartað. Ég átti vart til orð. Bókstaflega. Aldrei þessu vant hélt ég kjafti og hló ekki eins og hross í tíma og ótíma. Ég var ýmist hugfangin eða týnd, hryllt eða hlegin. Því verkið matar þig ekki. Það krefur þig um að þú matir þig á því. Stanslaust malið í Vinní í haugnum kallar fram hjá þér tilfinningar og skoðanir sem aðeins þú getur túlkað. Þannig gátu tvær náskyldar og mjög nánar systur setið þessa sýningu og haft algerlega ólíka sýn á hvað fyrir augum bar. 

Fyrir mig var hún ýmist heillandi eða hræðileg. Því hún gat kallað fram bæði ljúfar minningar og hrikalega áföll. Níst inn í þunglyndið og kallað fram von. Ég sá sjálfa mig oft í Vinní og það gerði mig sorgmædda. Það gerði mig líka glaða því það þýddi að ég er þekkt stærð. Tilfinningar mínar eru það eðlilegar að írskt karlkyns skáld skildi þær um miðja síðustu öld og Harpa Arnar gat kallað þær fram í Eddu Björg svo ég gæti skilið þær. Er ekki leiklist undursamlegt verkfæri? 

Ég ætla sko alls alls ekki að sitja hér og þykjast hafa vitað alltaf hvað væri að gerast. Alls ekki. Ég var oft bara mjög ringluð. En það er örugglega af því að það komu kaflar þar sem ég einfaldlega gat ekki kallað fram mína eigin móttilfinningu. Því þú þarft að vera svolítið undir það búin að það er enginn að fara að segja þér hvað hlutirnir þýða. Þeir þýða ekki neitt ef þeir þýða ekki neitt fyrir þig.  

Edda Björg Eyjólfsdóttir á að mínu mati hér algeran leiksigur. Þessi leikkona hefur sannarlega gert það sem leikkona gerir best. Notað tímann, aldurinn og þroskann til að styrkja sig í sinni list og listsköpun. Edda er algerlega á hæsta tindi, klædd, nestuð, senuð og sjóuð og tilbúin í hvað sem er. Það er bara á færi hæfasta listafólks að taka þetta hlutverk að sér og það er UNUN að horfa á manneskju hvíla svona í list sinni og augljóslega njóta þess. Edda er um þessar mundir einfaldlega færasta leikkona landsins. 

Árni Pétur Guðjónsson er það sem hann er. Það er ábyggilega ekki nokkur manneskja á þessari plánetu sem gæti, þótt hún reyndi, látið sér líka illa við Árna Pétur. En ég hef akkúrat ekkert um hann að segja úr þessu verki. Hlutverkið sem hann leikur hér er ekki þess eðlis að það kalli á sérstaka rýni. Mér svona datt í hug að Árni væri jafnvel pínu overcast í þetta hlutverk. Hvort hann hefði ekki viljað vera að gera eitthvað annað en liggja bakvið haug og sýna á sér hausinn. En það er bara ég. Árni er samt æði og gerir þetta stórvel og líkamstjáning hans í lok verksins er óskaplega falleg. 

Fyrir áhugafólk um leiklist, fólk sem hefur áhuga á að skoða fallega leiklist og leiklist sem er krefjandi, mæli ég svo innilega með þessari sýningu og þakka Mörtu og Leikfélagi Akureyrar innilega fyrir að færa okkur slíkt menningargull hér á norðurhjara.  

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó