Hátt í 2.000 félagsmenn tóku þátt í mótun kröfugerðar

Frá fundinum í gær. Mynd: ein.is

Nýlega kannaði Eining-Iðja hug félagsmanna til áherslna félagsins í komandi kjarasamningum og voru niðurstöður könnunarinnar kynntar á fundi samninganefndar í gær. Þar kom m.a. fram að tvær mikilvægustu kröfurnar gagnvart atvinnurekendum væru að auka kaupmátt launa og að launahækkun verði í krónutölu. Þar á eftir komu þrjár kröfur; launahækkun verði í %; stytta vinnuvikuna án þess að skerða laun og hækka lægstu launin umfram aðra. Mikilvægustu kröfurnar gagnvart ríkinu væru að hækka skattleysismörkin og að lækka skattprósentuna. Alls bárust 1.483 svör og sá Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri um að vinna úr niðurstöðunum.

31 fundur með grasrótinni

Björn Snæbjörnsson, formaður félagsins, segir að auk könnunarinnar hafi félagið verið með 31 opinn fund með um 40 starfsgreinum á félagssvæðinu þar sem farið var yfir kröfur sérstakra hópa og vinnustaða. „Til að ná fram sem bestum upplýsingum um vilja félagsmanna var ákveðið að fara í þessa fundaherferð. Í sjálfri könnuninni var spurt um almenn atriði í kröfugerðina en á þessum fundum var verið að ræða sérkröfur hópa eða vinnustaða. Auðvitað voru fundirnir misvel sóttir en góðir punktar komu fram á þeim öllum sem munu nýtast samninganefnd félagsins í þeirri vinnu sem fram undan er. Fyrir síðustu samninga gafst vel að nota þessa aðferð og það sama var upp á teningnum nú. Hátt í 2.000 félagsmenn hafa komið að þessari vinnu og vil ég nota tækifærið og þakka þeim fyrir þátttökuna. Árangur í samningum byggist á því að menn standi saman, það gerist ekki með því að örfáir einstaklingar sjái um málið. Enn og aftur, takk.“

Hvað nú?

Samninganefnd félagsins heldur dagsfund þann 5. september nk. þar sem tekin verða saman drög að kröfugerð félagsins. Dagana 10. til 12. september verða svo haldnir fimm fundir á félagssvæðinu þar sem drögin verða kynnt, en þar gefst félagsmönnum aftur tækifæri til að koma með ábendingar og hafa áhrif á kröfugerðina áður en gengið verður endanlega frá henni á fundi samninganefndar þann 18. september. Fullmótuð kröfugerð þarf að hafa borist Starfsgreinasambandi Íslands fyrir 20. september nk. Á fundinum í gær var samþykkt að veita SGS umboð til kjarasamningagerðar fyrir hönd félagsins vegna kjarasamninga á almenna vinnumarkaðnum, sem renna út 31. desember 2018. Umboð var veitt annars vegar vegna aðalkjarasamnings á milli SGS og SA og hins vegar vegna kjarasamnings SGS við SA vegna veitinga-, gisti-, þjónustu-, og greiðasölustaða, afþreyingarfyrirtækja og hliðstæðrar starfsemi.

UMMÆLI

Sambíó