Prenthaus

Hátt í 100 manns á kynningarfundi um tjaldsvæðisreitMynd: Akureyri.is

Hátt í 100 manns á kynningarfundi um tjaldsvæðisreit

Hátt í 100 manns komu í Íþróttahöllina til að hlusta á kynningu skipulagshönnuða um framtíðarskipulag tjaldsvæðisreitsins við Þórunnarstræti sem haldinn var í gær. Mikill meirihluti gesta tók síðan þátt í umræðum um fyrirkomulag blandaðrar íbúðabyggðar, heilsugæslustöðvar og annarrar þjónstu sem gert er ráð fyrir að verði á reitnum. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar.

Pétur Ingi Haraldsson, skipulagsfulltrúi Akureyrarbæjar, er ánægður með hvernig til tókst og segir að almennur samhljómur hafi verið meðal fundarfólks um skynsamlega nýtingu tjaldsvæðisreitsins til framtíðar. „Það komu fram margar ólíkar skoðanir en mér heyrist að flestir geri sér góða grein fyrir mikilvægi þess að við nýtum þennan dýrmæta reit í hjarta bæjarins til að þétta byggðina í þágu fólksins sem hér býr,“ segir Pétur á vef bæjarins.

„Næstu skref eru að kalla eftir hugmyndum og samtali bæjarbúa um framtíðarskipulag á reitnum. Opnað hefur verið sérstakt svæði hér á heimasíðunni með ýmsum upplýsingum um breytingar á deiliskipulagi fyrir reitinn og samráðsvettvangur á Okkar Akureyri á heimasíðunni Betraisland.is,“ segir í tilkynningu Akureyrarbæjar.

UMMÆLI