Heilbrigðisstofnun Norðurlands rekin með 126 milljón króna afgangi 2018

Heilbrigðisstofnun Norðurlands rekin með 126 milljón króna afgangi 2018

Ársfundur Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN) var haldinn í Hofi í dag, föstudaginn 20. september. Helstu niðurstöður rekstrarársins 2018 eru þær að stofnunin var rekin með 126 milljóna afgangi á árinu. Rekja má afganginn til sérstakrar aukafjárveitingar sem heilbrigðisstofnanir fengu á árinu 2018. Rekstur stofnunarinnar er fyrstu 8 mánuði ársins 2019 samkvæmt áætlun en stefnt er á að stofnunin verði rekinn með 30 milljóna halla á árinu 2019.

Heilsugæslustöðin fer úr miðbænum – Tvær nýjar heilsugæslustöðvar á Akureyri í staðinn

Á fundinum var einnig fjallað um að í vinnslu er að tryggja nýtt húsnæði undir heilsugæsluna á Akureyri. Stefnt er að því að leigja sérhæft húsnæði undir tvær heilsugæslustöðvar á Akureyri og flytja úr húsnæði heilsugæslunnar í Hafnarstræti. Einnig hefur verið tekin ákvörðun um að byggja nýtt hjúkrunarheimili á Húsavík sem verður til mikilla bóta fyrir aðstöðu þar.

Nýtt geðheilsuteymi – Lengri og sérhæfðari þjónusta

Aðrar niðurstöður fundarins voru þær að boðið verði upp á heilsueflandi heimsóknir til einstaklinga sem náð hafa 80 ára aldri á öllu starfssvæðinu á árinu. Starfsemistölur sýna flestar aukna þjónustu stofnunarinnar við fólk á starfssvæðinu. Einnig hefur nýtt geðheilsuteymi verið stofnað sem kemur til með að starfa þvert á umdæmi einstakra heilsugæslustöðva hefur. Geðheilsuteymið er skilgreint sem 2. línu þjónusta innan geðheilbrigðiskerfisins þar sem hægt verður að veita lengri og sérhæfðari þjónustu en tök eru á í sjálfri heilsugæslunni. Þá er geðheilsuteymi HSN einnig ætlað hlutverk sem n.k. brú á milli HSN, geðdeildar Sjúkrahússins á Akureyri og félagsþjónustu sveitarfélaganna á starfssvæði HSN. Auk þess má gera ráð fyrir að samstarf verði við starfsendurhæfingarúrræði á svæðinu.

UMMÆLI