Heilbrigðisstofnun Norðurlands rekin með 28,7 milljóna halla

Heilbrigðisstofnun Norðurlands rekin með 28,7 milljóna halla

Ársfundur Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN) var haldinn fimmtudaginn 22. september 2022.

Helstu niðurstöður rekstrarársins 2021 eru að stofnunin var rekin með 28,7 milljóna króna halla. Samningar um styttingu vinnuvikunnar reyndust dýrari en áætlanir gerðu ráð fyrir og voru nýir samræmdir stofnanasamningar heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni HSN dýrir. Viðvarandi vandi er í rekstri hjúkrunardeilda. Þá gerir nýtt fjármögnunarmódel verulega hagræðingarkröfu á minni heilsugæslur HSN, sem erfiðlega hefur gengið að láta ganga upp og hagræða fyrir að fullu án þess að hafa alvarleg áhrif á þjónustu. Hagræða þarf verulega í rekstri HSN ef reksturinn á að vera innan fjárlaga 2023 miðað við framlagt fjárlagafrumvarp.

Heimsfaraldur Covid-19 hafði margvísleg áhrif á starfsemi HSN á árinu 2021. Bæði starfsmenn og skjólstæðingar þurftu að lúta sóttvarnareglum og takmarkanir voru á heimsóknum til skjólstæðinga. Mikið álag hefur verið á starfsmenn stofnunarinnar tengt faraldrinum og ekki síst tengt bólusetningum og sýnatökum sem starfsmenn sinntu samhliða hefðbundnum verkefnum. Þrátt fyrir þetta hafa heildarsamskipti í heilsugæslunni ótengd Covid-19 verkefnum aukist á milli ára. Rafræn samskipti halda áfram að vaxa með aukinni notkun Heilsuveru.

Unnið var áfram að þróun heilsueflandi móttaka á svæðinu með áherslu á einstaklinga með sykursýki týpu 2. HSN lagði mikið upp úr innleiðingu rafrænna ferla og upplýsingatækni á árinu. Jafnframt var lögð áhersla á að hefja innleiðingu á velferðartæknilausnum í heimahjúkrun.

Fjölmörg viðhaldsverkefni voru unnin á árinu. Þar stendur hæst endurbygging á þriðju hæð sjúkrahússins á Siglufirði en útbúin voru fimm herbergi á hæðinni sem hefur staðið ónotuð í mörg ár. Tilgangurinn með framkvæmdunum er að bæta aðstæður á legudeildinni og tryggja að allar stofur séu einsetnar og með salerni. Haldið var áfram endurbótum á hjúkrunardeildinni á Sauðárkróki sem miða einnig að því að allar stofur verði einsetnar og með salerni. Fjölmargar minni framkvæmdir voru kláraðar. Unnið var að hönnun á nýju hjúkrunarheimili á Húsavík og jarðvegsvinna boðin út og kláruð.

Haldið var áfram undirbúningi að byggingu tveggja nýrra heilsugæslustöðva á Akureyri. Hafist var handa við að hanna stöð í Sunnuhlíð í samstarfi við starfsfólk HSN. Þá var haldið áfram undirbúningi að því að byggja suðurstöðina á lóð við Þórunnarstræti. Það verkefni er þó í uppnámi vegna ágreinings ríkis og sveitarfélags um byggingu bílastæða.

Líkt og aðrar heilbrigðisstofnanir stendur HSN frammi fyrir áskorun varðandi mönnun heilbrigðismenntaðs starfsfólks. Á flestum starfsstöðvum HSN hefur gengið erfiðlega að ráða inn hjúkrunarfræðinga og var sérstaklega erfitt að fá hjúkrunarfræðinga í sumarafleysingar.

Á ákveðnum starfseiningum hefur einnig gengið illa að ráða í stöður heimilislækna. Stofnunin mun áfram leitast við að efla sérnámsstöður lækna og hjúkrunarfræðinga og fræðslu almennt.

Ársskýrslu Heilbrigðisstofnunar Norðurlands má finna á hsn.is

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó