Heilsa og færni einstaklinga sem hafa fengið heilaslag

Heilsa og færni einstaklinga sem hafa fengið heilaslag

Fimmtudaginn 12. október nk. kynnir dr. Steinunn A. Ólafsdóttir, sjúkraþjálfari og lektor við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands, niðurstöður doktorsrannsóknar sinnar sem hún varði við HÍ árið 2021.

Kynningin fer fram í Brauðgerðarhúsinu í verslunarmiðstöðinni við Sunnuhlíð og hefst kl. 16:00.

Doktorsrannsókn Steinunnar fjallar um einstaklinga sem hafa fengið heilaslag en á hverju ári fá um 500 einstaklingar heilaslag á Íslandi. Færni og fötlun einstaklinga í kjölfar heilaslags er mjög mismunandi en þessi rannsókn er sú fyrsta sem skoðar þennan hóp á Íslandi. Annars vegar var könnun lögð fyrir einstaklinga sem búa í heimahúsum 1-2 árum eftir að hafa fengið heilaslag þar sem spurt var um heilsu, færni og aðstæður þeirra og hins vegar var unnið að því að þróa tæknibúnað til að hvetja þennan hóp til aukinnar hreyfingar, en líkamleg virkni og sértækar æfingar eru mikilvægar fyrir einstaklinga eftir heilaslag til að viðhalda og auka líkamlega færni.

Bakarís-fyrirlestrar eru samstarfsverkefni AkureyrarAkademíunnar og Brauðgerðarhúss Akureyrar. Markmið þeirra er að kynna verkefni sem fólk hefur unnið að hjá AkAk, bjóða upp á viðburði í Sunnuhlíð og gefa bæjarbúum tækifæri til að fræðast og spjalla um fjölbreytt viðfangsefni.

AkureyrarAkademían er fræða- og þekkingarsetur á Akureyri, stofnað árið 2006, og erum við til húsa í verslunarmiðstöðinni við Sunnuhlíð 12. Við bjóðum einstaklingum upp á vinnuaðstöðu til að sinna sínum hugðarefnum og miðlum þekkingu til samfélagsins með því að standa fyrir fjölbreyttum viðburðum sem hafa það markmið að virkja almenning til þátttöku og stuðla að umræðum.

UMMÆLI