Heimsástandið tefur fyrir opnun Zipline Akureyri

Heimsástandið tefur fyrir opnun Zipline Akureyri

Það stóð til að opna Zipline Akureyri í byrjun júlímánaðar en opnuninni hefur verið frestað. Í tilkynningu frá Zipline Akureyri segir að allar línur séu komnar upp, allur búnaður sé kominn, allt starfsfólk hafi verið þjálfað og öll leyfi komin. Það sem vanti nú er að klára lokaúttekt af óháðum aðila sem hefur frestast vegna ástandsins í heiminum.

Óháði aðilinn sem um ræðir er sérfræðingur frá Þýskalandi sem átti upprunalega að koma til Íslands í lok júní en það tafðist fram í júlí. Eigendur Zipline Akureyri vilja ekki hleypa almenningi á línurnar fyrr en öll öryggisatriði hafa verið staðfest.

„Við erum í raun að upplifa bein og óbein áhrif af veikindum, vöruskorti og öðru heimsástandi. Leiðinda áminning um þá ljómandi fallegu staðreynd að við erum öll tengd öllum og öllu í heiminum. Við erum samt heppin, erum að sjá mun meiri tafir og vesen í kringum okkur. Hjá okkur er þó alveg að sjást fyrir hornið. Svo erum við líka fáránlega heppin með dásamlegt starfsfólk sem hefur staðið í þessu með okkur. Bæjarbúar og aðrir tilvonandi zipparar, Akureyrarbær og @ziplineiceland hafa sýnt okkur mikinn skilning og stuðning í þessu hindrunarhlaupi. Við erum þakklát. Þó það sé kannski seinna en áætlað var þá er ekki mjög langt í hlátrasköll í Glerárgili,“ segir í tilkynningu Zipline.

Í tilkynningunni segir að staðfest opnun verði auglýst þegar allt sé orðið klárt. Lokað hefur verið fyrir bókanir í júlí og búið er að hafa samband við alla sem höfðu þegar bókað.

UMMÆLI

Sambíó