Heimsóknarbanni aflétt hjá Öldrunarheimilum Akureyrar

Heimsóknarbanni aflétt hjá Öldrunarheimilum Akureyrar

Laugardaginn 21. nóvember var heimsóknarbanni inn á heimilin hjá ÖA aflétt. Tekið var upp fyrra fyrirkomulag með takmarkaðar heimsóknir.

Nú er einn aðstandandi leyfður og heimsókn einu sinni á dag og jafnframt þurfa aðstandendur að tilkynna hver heimsækir. Heimilin verða áfram læst og þurfa heimsóknargestir því að gera vart við sig þegar þeir koma.

„Verulega hefur dregið úr fjölda einstaklinga í sóttkví og í einangrun bæði á Akureyri og á landsvísu. En okkur er öllum ljóst að veiran er enn í samfélaginu og við vitum að það þarf ekki mikið til að smitum fjölgi aftur. Reynslan sýnir að nú skiptir öllu að halda áfram að fara mjög varlega, sérstaklega hvað varðar hitting eða samveru margra einstaklinga, bæði innan og utan fjölskyldna,“ segir á vef Öldrunarheimila Akureyrar.

Þar segir enn fremur:

„Sóttvarnalæknir hefur lýst áhyggjum af komandi vikum vegna jólaundirbúnings og áhrifa hefða á hegðun fólks á þessum tíma. Tökum tillit til þeirra ábendinga og endurmetum hefðirnar, sérstaklega í ljósi núverandi ástands og heimsfaraldurs.
Sóttvarnalæknir hefur líka hafið undirbúning vegna væntanlegrar bólusetningar en enn liggur ekki fyrir hvenær bólusetning hefst né hve mikið af bóluefni verið aðgengilegt á fyrstu stigum.

Yfirlit yfir helstu breytingar á reglum:

• Heimsóknatakmarkanir í stað heimsóknarbanns taka gildi 21. nóv.
• Einn og sami aðili sinni heimsóknum, að hámarki einu sinni á dag.
• Tilkynna þarf til heimila hver sinnir heimsóknarhlutverkinu.
• Gestir skulu nota maska, spritta, gæta fjarlægðarmarka, koma og fara styttstu leið.
• Íbúum heimilt að fara út eða í bílferð með heimsóknaraðila.
• Dagþjálfun opnar fyrir notendur sem verið hafa fjarverandi
• Nýir notendur í dagþjálfun og skammtímadvöl koma frá 30. nóv. Lagt verður mat á þörf fyrir sýnatöku nýrra íbúa/notenda.
• Iðju- og félagsstarf verður óbreytt, inn á heimilum.
• Starfsfólk notar áfram maska og metur hverju sinni hvort tilefni er til að fara á milli heimila eða sóttvarnarhólfa.

Fram til þessa höfum við haft erindi af erfiði okkar, því þrátt fyrir að ættingjar eða starfsfólk hafi sýkst, hefur veiran ekki komið til eldra fólksins sem við erum að aðstoða eða annast. Fyrir það erum við sérstaklega þakklát.

Framundan er lokaáfanginn í baráttunni við Covid 19. Í því felst að halda út, missa ekki tökin fram til þess tíma að hægt verður að hefja bólusetningar.

Förum áfram varlega svo okkur takist að halda smitum í lágmarki.“

UMMÆLI

Sambíó