Heimsóknarbanni aflétt með takmörkunum

Heimsóknarbanni aflétt með takmörkunum

Heimsóknir verða leyfðar á Öldrunarheimilum Akureyrar frá og með 4. maí en þó með ákveðnum takmörkunum. Heimsóknarbann hefur verið í gildi frá 7. mars vegna útbreiðslu Covid-19. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar.

„Fyrsta tilslökun á samkomubanni verður á mánudaginn. Þá verður almenna reglan sú að 50 manns mega koma saman í stað 20 áður en tveggja metra reglan verður áfram í gildi meðal fullorðinna.

Almenna reglan í Hlíð og Lögmannshlíð til 17. maí er sú að nánasti aðstandandi er velkominn í heimsókn einu sinni í viku (einn og sami gesturinn fyrstu tvær vikurnar). Aðstandendur hafa fengið nánari upplýsingar og leiðbeiningar um fyrirkomulag heimsókna.

Sjúkraþjálfun má fara fram í tækjasal, auk þess sem hársnyrting og fótsnyrting hefst aftur en ítrustu sóttvarna er gætt. 20 manna hámarksfjöldi og einungis íbúar og starfsfólk úr sama sóttvarnarhólfi mega vera í sjúkraþjálfun/snyrtingu á sama tíma.

Frá 5. maí verður dagþjálfun að nýju í Lerkihlíð og notendum fjölgar en þó mega ekki vera yfir 20 í sama rými.

Ekkert miðlægt félagsstarf verður út maí.

Farsóttardeildinni í Hlíð verður lokað mánudaginn 11. maí og verður að nýju tekið inn í tímabundnar dvalir frá 13. maí.“

UMMÆLI