Hin heilaga hvíld

Hin heilaga hvíld

Umræða um hreyfingu er aldrei langt undan þegar heilbrigði og velferð berst í tal. Enda er ekki hægt að telja á annarri hendi heilsufarslegan ávinning sem fæst af reglulegri hreyfingu. Sem dæmi dregur hreyfing úr líkum á ýmsum lífstílssjúkdómum, bætir svefn, léttir lundina og eykur einfaldlega lífsgæðin. Það þarf því ekki að fara mörgum orðum um það að hreyfing er öll af hinu góða. 

Sumir hafa aftur á móti misskilið þessi skilaboð og haldið því fram að meiri hreyfing sé betri. En svo er nú ekki. Almennt í lífinu þá er hvorki of eða van af hinu góða og það sama gildir um hreyfinguna. Hvíld á móti hreyfingu er alveg jafn mikilvæg en án hennar skilar sér ekki almennilega heilsufarslegur ávinningur hreyfingar. Hvíldardagar eru því bráðnauðsynlegir og verðskulda þeir alveg jafn mikið lof og dagarnir sem við skellum okkur í ræktina eða út að hlaupa. 

Hvíldardagar (e. rest days) eru þeir dagar þar sem engin skipulögð hreyfing er á dagskrá. Það þarf samt ekki að þýða að einstaklingur liggi uppi í rúmi allan daginn þó að stundum geti hvíldardagar verið þannig. En af hverju að taka hvíld frá hreyfingu? Við líkamlega áreynslu erum við í raun að setja álag á líkamann og eftir slík átök er nauðsynlegt að líkaminn fái frið til að vinna úr þeim. Annars er hætta á ofþjálfun og auknar líkur á meiðslum. Við þær aðstæður telst hreyfing þá ekki vera heilbrigður valkostur. 

Við tengjum mörg hvíld við leti. Okkur finnst við alltaf þurfa að vera að gera eitthvað. Afreka eitthvað. En við gleymum alveg að hvíld er afkastamikil. Af því að með því að hvíla okkur fáum við innistæðu fyrir því að framkvæma það sem okkur langar. Með því að taka hvíldardag, þá er líkaminn í stakk búinn til að mæta á æfingu daginn eftir. Bæði líkamlega og andlega, þá þarf kroppurinn andrými til að ná sér. Þannig að næst þegar einhver spyr hvað þú sért að gera, skaltu segja með stolti að þú sért að hvíla þig. Af því það er heldur betur aðdáunarvert að hvílast og hlaða batteríin. 

*When you get tired learn to rest, not quit* 

Sambíó

UMMÆLI