Hjólreiðahátíð að hefjast á Akureyri

Hjólreiðahátíð að hefjast á Akureyri

Hjólreiðahátíð Hjólreiðafélags Akureyrar og Greifans verður haldin næstu daga á Akureyri og nágrenni. Keppt verður í ýmsum greinum hjólreiða, bæði innanbæjar og utan, og þess vegna má búast við töfum og takmörkunum á umferð, auk þess sem nokkrar götur verða lokaðar bílaumferð tímabundið. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar en þar kemur eftirfarandi einnig fram:

Fimmtudagur
Reiknað er með umferðartakmörkunum á Hlíðarbraut og Hlíðarfjallsvegi að kvöldi fimmtudags þegar keppendur í Gangamóti koma í bæinn frá Siglufirði og hjóla að endamörkum í Hlíðarfjalli og á svæði Bílaklúbbs Akureyrar. Þessum götum verður ekki lokað en umferð verður stýrt og má búast við töfum.

Laugardagur
Kaupvangsstræti verður lokað bílaumferð frá Hafnarstræti og upp að Eyrarlandsvegi milli kl. 17 og 21 en þá verður svokallaður Brekkusprettur í Listagilinu. Kirkjutröppubrun, frá Rósenborg og niður að Hótel KEA, er á dagskrá kl. 19 og verður umferðarstýring á Eyrarlandsvegi í skamman tíma.

Sunnudagur
Á sunnudag, fyrir hádegi, verður Goðanesi, Baldursnesi og Óðinsnesi lokað að hluta eða öllu leyti vegna Criterium móts.

Hjólreiðahátíðin hefst í dag, miðvikudag, og stendur fram til sunnudags. Á heimasíðu Hjólreiðafélags Akureyrar eru allar helstu upplýsingar og dagskrá hátíðarinnar.

Mynd: Akureyri.is/Ármann Hinrik


Goblin.is

UMMÆLI


Goblin.is